Skoðun

Hin þöglu svik

Ögmundur Jónasson skrifar
Nú þegar frjálshyggjumenn hafa hafist handa um að keyra heilbrigðiskerfið út í einkarekstur er óhjákvæmilegt að fólk beini sjónum sínum að samstarfsflokki Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, Samfylkingunni og kalli hana til ábyrgðar. Þótt samskiptin í ríkisstjórn gangi greinilega út að gefa hverjum ráðherra frelsi til að fara sínu fram í „sínu ráðuneyti“, þá verður ekki horft framhjá tvennu:

Í fyrsta lagi er skipting ráðuneyta á ábyrgð beggja stjórnarflokkkanna. Samfylkingin verður að horfast í augu við þá staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn stýrir heilbrigðisráðuneytinu með hennar samþykki og á hennar ábyrgð. Í öðru lagi breyta ákvarðanir um innbyrðis verkaskiptingu ekki því að gjörðir einstakra ráðherra eru á ábyrgð ríkisstjórnarinnar allrar.

Samfylkingin hefur vissulega daðrað nokkuð við hugmyndir um einkarekstur á ýmsum sviðum, einnig í heilbrigðiskerfinu. Þar hefur varaformaður flokksins meira að segja haft sig talsvert í frammi. Á sama tíma hefur Samfylkingin hamrað á því að hún sé félagshyggjuflokkur en ekki flokkur fjármagnseigenda. Á þeirri forsendu veittu margir kjósendur henni brautargengi í síðustu þingkosningum.

Nú hafa rök verið færð fyrir því að gjörðir Sjálfstæðisflokksins grafi undan almannareknu heilbrigðiskerfi og styrki einkarekstrarkerfi að sama skapi. Ég þarf að taka á því til að trúa því að Samfylkingin ætli að láta þetta gerast óátalið. Þögn og afskiptaleysi fela í sér afstöðu. Þögn er sama og samþykki segir gamalt máltæki. „Þau eru verst hin þöglu svik, að þegja við öllu röngu”, segir í þýðingu Bjarna Jónsonar frá Vogi á gömlu kvæði eftir norska skáldið Arne Garborg. Það eru orð að sönnu.

Hvað skyldi kjósendum Samfylkingarinnar finnast um flokkinn sem þeir kusu, hinn þögla félaga þeirra Geirs og Guðlaugs Þórs í ríkisstjórninni?



Höfundur er alþingismaður.





Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×