Körfubolti

Glæsilegur sigur Íslands á Austurríki

Íslenska körfuboltalandsliðið vann í kvöld glæsilegan sigur á Austurríki í lokaleik sínum í B-deild Evrópukeppninnar. Leikið var í Laugardalshöll. Íslenska liðið byrjaði leikinn illa en hitnaði síðan hratt og vann á endanum 91-77.

Austurríki byrjaði mun betur í leiknum en íslenska liðið saxaði á forskotið og var forysta gestana tvö stig þegar haldið var inn í hálfleikinn. Í seinni hálfleiknum sýndi Ísland frábæra frammistöðu með Jakob Sigurðarson í broddi fylkingar og þegar langskot íslenska liðsins fóru að detta var aldrei spurning hvoru megin sigurinn lenti. Íslenska liðið vann síðustu þrjá leiki sína í riðlakeppninni og lauk því keppni á góðu skriði. Finnar hirtu efsta sætið í riðlinum, Georgíumenn urðu í öðru, Íslendingar í þriðja, Austurríki varð í fjórða og Lúxembúrg hafnaði í neðsta sætinu.

Jakob skoraði 21 stig fyrir íslenska liðið, gaf 10 stoðsendingar og hirti 7 fráköst. Páll Axel Vilbergsson skoraði 13 stig, Fannar Ólafsson skoraði 12 stig og hirti 8 fráköst, Helgi Magnússon skoraði 11 stig og Magnús Gunnarsson 9 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×