Heimför geimskutlunnar Endeavour verður að öllum líkindum flýtt vegna fellibylsins Dean sem ríður nú yfir Karabíska hafið. Ef svo færi myndi skutlan lenda á þriðjudaginn í stað miðvikudags í næstu viku.
Vísindamenn Nasa hafa fylgst grannt með fellibylnum og óttast að hann trufli stjórn ferjunnar í Houston í Texas. Samkvæmt veðurspám gæti stormurinn vaxið næstu sólarhringa þegar hann nálgast Mexíkóflóa á þriðjudaginn og ógnað stjórnstöð Nasa og öðrum byggðum í Texas. Viðbúið er að rými þurfi stöðina vegna stormsins og vill Nasa að ferjan verði lent áður en til þess kæmi. Þó er mögulegt að flytja stjórnina til Flórída.
Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um lendingartímann, en áhafnarmeðlimir eru farnir að gera ráð fyrir honum verði flýtt. Áætluð sex tíma löng geimganga í dag verður stytt til að hefja undirbúning heimkomu á þriðjudaginn. Áætlaður lendingarstaður ferjunnar er í Flórída en þar ætti áhrifa stormsins ekki að gæta.
Vísir heldur áfram að fylgjast með Endeavour.