Bandaríska geimferðastofnunin frestaði í gær fjórðu geimgöngu áhafnar geimferjunnar Endeavour vegna óvissu um hvort gera þurfi við rifu á hitahlíf ferjunnar. Geimgangan átti að fara fram á morgun og fól í sér ýmiss önnur verkefni en mögulega viðgerð á geimferjunni. Göngunni hefur verið frestað fram á laugardag.
Verið er að rannsaka enn frekar alla möguleika á skemmdum með líkönum. Enn sem komið er virðist sem skemmdin muni ekki hafa áhrif á endurkomu Endeavour til jarðar. Ákvörðun um hvort gert verði við rifuna er að vænta í dag. Skemmdin varð þegar stykki af einangrunarfroðu losnaði af eldsneytistanki Endeavour og rakst í ferjuna.
Nasa hefur gætt mikillar varúðar síðan að geimferjan Columbia fórst í endurkomu til jarðar árið 2003. Nasa framkvæmir nú að minnsta kosti þrjár skoðanir eftir skemmdum í hverri geimferð og hefur efni til viðgerða um borð.
Gat á hanska geimbúnings
Gat fannst á vinstri hanska geimbúnings eins geimfarans í gær. Geimfarinn Rick Mastracchio var við vinnu við alþjóða geimstöðina í þriðju geimgöngu áhafnar Endeavour þegar hann sá gatið. Ekki var hætta á leka af gatinu en af varúðarástæðum var hann látinn hætta vinnu og fara inn í geimstöðina. Geimfarinn Clay Anderson varð eftir og kláraði vinnu sína við stöðina. Nasa ákvað að slá á frest tveimur tilraunum sem geimfararnir áttu að framkvæma í göngunni.
Síðastliðinn desember fannst gat á hanska geimbúnings eftir geimgöngu og eru eftir það framkvæmdar öryggisathuganir á tveggja klukkutíma fresti. Gatið á vinstri hanska Mastracchio fannst við slíka athugun.