Sýrlendingar segja að þeir muni ekki hefja friðarviðræður við Ísrael nema Ísraelar gefi fyrirfram loforð um að skila öllum Golan hæðunum. Bashar al-Assad, forseti Sýrlands lýsti þessu yfir á sýrlenska þinginu í dag. Ísraelar hertóku hæðirnar í sex daga stríðinu árið 1967. Löndin eru að forminu til enn í stríði.
Friðarviðræður milli Ísraela og Sýrlendinga runnu út í sandinn árið 2000, þegar ekki náðist samkomulag um Golan hæðirnar. Undanfarin tvö ár afa Sýrlendingar sótt æ fastar að fá hæðirnar aftur og undanfarna mánuði hefur verið á kreiki orðrómur um að þeir ætli að taka þær með hervaldi í sumar.
Víst er að Sýrlendingar hafa undanfarið verið að stórefla herlið sitt við landamæri ríkjanna. Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels hefur sagt að hann sé reiðubúinn að setjast að samningaborðinu með Assad.