Lækkanir voru á helstu hlutabréfamörkuðum í dag eftir að ávöxtunarkrafa bandarískra skuldabréfa til 10 ára hækkaði um 5,27 prósent í gær. Það merkir að verðmæti skuldabréfa lækkar og hefur það ekki verið með lægra móti í fimm ár. Fjárfestar ytra eru sagðir uggandi vegna hækkandi lánskostnaðar.
Breska ríkisútvarpið, BBC, segir hækkun á ávöxtunarkröfu skuldabréfa merki um stýrivaxtahækkun í nánustu framtíð. Séu fjárfestar uggandi yfir ástandinu en geti það komið niður á afkomu fyrirtækja.
Bandaríska Dow Jones-vísitalan lækkaði um 130 punkta í gærkvöldi en 30 punkta lækkun var á FTSE-100 vísitölunni í Lundúnum í Bretlandi. Þá fór Nikkei-vísitalan niður um 28 punkta í Japan í morgun auk þess sem hin þýska Dax-vísitalan lækkaði um 72 punkta.
Robert Peston, ritstjóri viðskiptafrétta hjá BBC, segir að hækki langtímavextir geti það komið niður á yfirtökum fyrirtækja þar sem kostnaður við þær hækki auk þess sem dýrara verði að fjármagna fyrirtækjakaup.