Fregnir bárust þess efnis Vestanhafs að Sherry hefði reynt að stinga eignmann sinn og kom Daly skrámaður í andliti til keppni við TPC Southwind golfvöllinn þar sem fjölskyldan býr skammt frá. Þegar lögreglumenn bar að heimili hjónanna á föstudagskvöld voru Sherry og börnin á braut og meintur hnífur sem átti að hafa verið notaður til árásarinnar fannst hvergi.
Engar kærur hafa enn verið lagðar fram í málinu en Daly sótti um nálgunarbann á Sherry sem nú hefur gert slíkt hið sama og krefst þess að hún fái í sinn hlut hús þeirra hjóna við TPC Southwind völlinn, forræði yfir börnunum og áframhaldandi vasapeninga frá eiginmanninum sem voru að hennar sögn um 15-30 þúsund Bandaríkjadalir á mánuði.
Í skýrslu sem Sherry hefur látið taka af sér hjá yfirvöldum segir hún að John hafi verið að drekka mikið á fimmtudagskvöldinu og hafi fyrir vikið misst stjórn á skapi sínu. Sherry segist ennfremur hafa vaknað upp við læti í Daly umrætt fimmtudagskvöld þar sem hann hafi haft uppi meiðingar í orði og líkamsmeiðingar og hafi m.a. reynt að þröngva henni til samræðis við sig. Daly hefur neitað þessum ásökunum eiginkonu sinnar.
Enn er ekki komin kæra í málinu eins og áður greinir en ef til þess kemur og annar aðilinn verður sakfelldur þá gæti dómurinn orðið þungur því bæði hafa áður komist í kast við lögin.