Flugvélasmiðir hjá bandaríska flugvélaframleiðandanum Boeing eru þessa dagana að ljúka við að setja saman nýjustu farþegaþotu fyrirtækisins, Dreamliner787. Hlutirnir eru framleiddir víða um heim en settir saman í námunda við Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna. Horft er til þess að tilraunaflug vélanna hefjist í ágúst og verði þær fyrstu afhentar í maí á næsta ári.
Gert er ráð fyrir að sjö vikur taki að setja fyrstu vélarnar saman en þegar lengra líður en talið að hægt verði að setja saman hverja vél á sex dögum.
Þetta mun vera fyrsta nýja farþegaþotan sem Boeing smíðar í áratug, að sögn breska ríkisútvarpsins. Vel hefur gengið að selja vélarnar en pantanir hafa verið lagðar inn fyrir 568 vélum frá 44 flugfélögum.
Helsti samkeppnisaðili Boeing, franski flugvélaframleiðandinn Airbus hefur átt við mikla erfiðleika að etja við smíði á nýjustu flugvél sinni, risaþotunni A380, einni stærstu farþegaflugvél í heimi. Framleiðslan tafist mjög á síðasta ári og er nú svo komið að afhending vélanna er tveimur árum á eftir áætlun.
Breska ríkisútvarpið hefur eftir Scott Strode, aðstoðarframkvæmdastjóra hjá Boeing, að með framleiðslu vélarinnar hafi verið stigið nýtt skref í hönnun flugvéla. Eru vængirnir búnir til úr plastefni sem gerir það að verkum að vélarnar eru léttari og brenna 20 prósentum minna eldsneyti en aðrar flugvélar.