Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gefið evrópska útgáfufyrirtækinu Universal Music græna ljósið á að kaupa þýska útgáfu- og afþreyingafyrirtækið BMG Music Publishing. Kaupverð nemur 1,63 milljörðum evra, jafnvirði rúmra 137 milljarða íslenskra króna. Með kaupunum verður til stærsta tónlistarútgáfa í heimi.
Breska ríkisútvarpið bendir á að Evrópusambandið hafi engu að síður verið í vafa um áhrif samrunans á sölu á stafrænni tónlist á netinu en til stendur að selja útgáfurétt frá fyrirtækinu.
Þýski fjölmiðla- og afþreyingarisinn Bertelsmann átti BMG Music Publishing en ákvað að selja fyrirtækið til að greiða upp skuldir. Franski fjölmiðlasamsteypan Vivendi er aðaleigandi Universal Music.