Fjarstýrðir víbratorar hafa verið bannaðir á Kýpur. Breska fyrirtækið Anne Summers framleiðir þessi og önnur hjálpartæki ástarlífsins. Fyrirtækið hefur beðið kýpverska viðskiptavini sína afsökunar á því að þeir fá ekki að njóta þessarar tækninýjungar.
Ástæðan fyrir banninu er sú að hermálayfirvöld á Kýpur óttast að þessi fjarstýrðu áhöld geti truflað fjarskipti hersins.
Anne Summers segir að fjarstýringarnar dragi ekki nema í mesta lagi sex metra. Það sé því mjög ólíklegt að þær geti truflað fjarskipti hersins.
Nema náttúrlega það sé miklu meira gaman í fjarskiptastöðvunum en almennt sé vitað um.