Íslamska ríkið í Írak, sem er uppreisnarhópur tengdur al-Qaida, lýsti í dag yfir ábyrgð á sjálfsmorðsárásinni sem gerð var á veitingastað í írakska þinginu í gær.
Í tilkynningu sem birt er á heimasíðu sem íslamistar nýta sér til að koma skilaboðum sínum á framfæri segir meðal annars að hetju úr píslarvottarsveitum hafi tekist að komast inn í þingið og valda þar usla. Þar kom jafnframt fram að samtökin hefðu dregið það að lýsa yfir ábyrgð á árásinni til þess að aðstoða þá sem skipulögðu árásina að komast undan.
Al-Qaida og litlir hópar súnníuppreisnarmanna stofnuðu Íslamska ríkið í Írak í fyrra en hópurinn hefur lýst yfir ábyrgð á fjölda árása í Írak. Einn þingmaður lést í árásinni í gær og um tugur slasaðist.