Innlent

Alcan á enn möguleika á að þróa starfsemi sína í Hafnarfirði

Bæjarstjórinn í Hafnarfirði reiknar með að Alcan hafi áfram áhuga á því að nýta lóðina sem fyrirtækið keypti og ætlaði undir stækkað álver. Hann segir að álverið eigi enn möguleika á að þróa starfsemi sína í bænum.

Álverið í Straumsvík keypti stóra lóð á svæðinu fyrir um fjórum árum sem ætluð var undir stækkað álver. Nú þegar ekkert verður af stækkuninni, velta menn fyrir sér hvort fyrirtækið haldi lóðinni eða selji hana. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir það Alcan að ákveða það.

Lúðvík bendir á að stórt iðnaðarsvæði sé á þessu sama svæði og mikil eftirspurn eftir lóðum þar. Hann reikni hins vegar með að menn skoði áframhaldandi þróun á starfsemi álversins á lóðinni.

Lúðvík kvíðir ekki framtíðinni þótt íbúar hafi hafnað stækkun álversins. Það hafi óvíða verið eins mikill vöxtur og í Hafnarfirði, þar sem íbúum fjölgaði t.d. um 5,6 prósent í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×