Snæfell hefur náð lykilstöðu í einvíginu gegn KR eftir dramatískan 63-61 í vesturbænum í dag. Snæfell var yfir lengst af í síðari hálfleik en Brynjar Björnsson hélt KR inni í leiknum með skotsýningu. Það var Justin Shouse sem tryggði gestunum sigurinn með sniðskoti skömmu fyrir leikslok og Snæfell leiðir því 2-1 og getur klárað einvígið á heimavelli í fjórða leiknum.
Justin Shouse, Sigurður Þorvaldsson og Hlynur Bæringsson áttu fínan leik hjá Snæfelli, en segja má að KR-liðið hafi verið meðvitundarlaust í dag fyrir utan frammistöðu Brynjars Björssonar - sem skoraði meira en helming stiga liðsins.
Brynjar skoraði 31 stig fyrir KR í leiknum og hitti úr 6 af 11 þristum sínum og setti niður öll 11 vítaskot sín. Jeremiah Sola skoraði 11 stig og Darri Hilmarsson 6 stig. Lykilmennirnir Fannar Ólafsson og Tyson Patterson skoruðu samanlagt 9 stig og töpuðu 10 boltum.
Hjá Snæfelli voru þeir Sigurður Þorvaldsson (15 stig, 13 fráköst), Justin Shouse (15 stig) og Hlynur Bæringsson (14 stig og 10 fráköst) atkvæðamestir.