Mennirnir tveir sem sigldu skútu til Fáskrúðsfjarðar í síðasta mánuði, þar sem voru um 40 kíló af fíkniefnum um borð, hafa játað við yfirheyrslur að hafa verið burðardýr í þessu umfangsmikla fíkniefnamáli, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins.
Héraðsdómur úrskurðaði fjóra menn sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur handtekið vegna málsins í áframhaldandi gæsluvarðhald í gær, að kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Einn mannanna verður í gæsluvarðhaldi til 1. nóvember. Hann verður jafnframt áfram í einangrun vegna rannsóknarhagsmuna. Tveir úr hópnum verða áfram í gæsluvarðhaldi til 8. nóvember og einn til 29. nóvember. Ekki þótti ástæða til að úrskurða fimmta manninn í frekara gæsluvarðhald þar sem hann hefur þegar hafið afplánun vegna annarra brota. Um er að ræða annan manninn sem sigldi skútunni til Fáskrúðsfjarðar.
Lögregla fór fram á áframhaldandi einangrunarvist mannanna, en Héraðsdómur féllst ekki á það, nema með einni undantekningu, sem að ofan greinir. Sjötti maðurinn, sem handtekinn var síðastliðinn mánudag, var degi síðar úrskurðaður í gæsluvarðhald til 23. nóvember.
Í Færeyjum situr svo Íslendingur í gæsluvarðhaldi vegna þessa máls. Hann var upphaflega úrskurðaður til 18. október, en gæsluvarðhaldsvistin yfir honum var síðan framlengd til 3. nóvember. Hjá honum fundust tvö kíló af amfetamíni. - jss
Skútumenn játuðu að vera burðardýr
