Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir pilti um tvítugt, sem handtekinn var á bílaleigubíl á Fáskrúðsfirði á fimmtudaginn í síðustu viku, rennur út í dag en lögreglan hyggst óska eftir því að hann verði áfram í haldi. Það staðfesti Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins, við Fréttablaðið í gær.
Pilturinn er grunaður um að hafa ætlað að aðstoða Guðbjarna Traustason og Alvar Óskarsson, sem báðir eru 25 ára, við að fara frá Fáskrúðsfirði á bifreið en Guðbjarni og Alvar voru handteknir í skútu við Fáskrúðsfjarðarhöfn eftir að hafa reynt að smygla rúmlega sextíu kílóum af fíkniefnum inn í landið.
Yfirheyrslur yfir fimm mönnum sem eru í haldi lögreglu vegna rannsóknar á Pólstjörnumálinu svokallaða halda áfram í dag. Lögreglan verst allra frétta af rannsókninni.
Lögreglumenn frá fíkniefnadeild lögreglu höfuðborgarsvæðisins fóru til Færeyja fyrir skemmstu til að yfirheyra Íslending sem þar er í haldi en hann var tekinn með tvö kíló af amfetamíni í fórum sínum, sama dag og níu aðrir voru handteknir eftir að fíkniefnin fundust í skútunni.
