Fótbolti

Frækinn sigur á Frökkum

fréttablaðið/daníel

Íslenska kvennalandsliðið náði í gær einum bestu úrslitum í sögu íslenskrar knattspyrnu í gær með 1-0 sigri á Frökkum. Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði eina markið gegn sjöundu bestu þjóð heims samkvæmt styrkleikalista FIFA.

Stelpurnar virtust ögn stressaðar í upphafi leiks og voru full fljótar að sparka boltanum fram undir lítilli pressu. Frakkar spiluðu mjög vel saman en gekk illa að komast í góð marktækifæri. Þess í stað freistuðu þær þess að skjóta af löngum færum sem trufluðu Þóru B. Helgadóttur lítið í markinu. Stelpurnar okkar seldu sig illa á tíðum en það kom sem betur fer ekki að sök.

Stelpurnar voru mjög ákveðnar í fyrri hálfleik og létu finna fyrir sér. Þrátt fyrir skotveislu Frakka var lítil hætta á ferðum og Margrét Lára Viðarsdóttir og Ásthildur Helgadóttir sköpuðu oft usla í vörn gestanna, án þess þó að skapa dauðafæri.

Þrátt fyrir að fá pláss til að athafna sig var vörn Íslands svo þétt og vel skipulögð að ein besta þjóð heims var ekki líkleg til að skora fyrr en í síðari hálfleik. Þá varði Þóra meistaralega í þrígang og hélt liðinu inn í leiknum. Auk þess fóru Frakkar illa að ráði sínu í tveimur dauðafærum.

Margrét og Ásthildur voru allt í öllu í sóknarleik Íslands. Þær fundu sig mjög vel saman en eins og við mátti búast fékk Ísland ekki mörg færi í leiknum. Í einu af fáum skoraði Margrét Lára með skalla sem lak inn af markverði Frakka eftir sendingu Dóru Maríu Lárusdóttur.

Þrátt fyrir þunga pressu stóran hluta leiksins fundu þær frönsku ekki leið framhjá íslensku stelpunum sem börðust eins og grenjandi ljón allan leikinn. Þær knúðu fram ótrúleg úrslit og halda svo sannarlega uppi heiðri A-landsliða Íslands. Stelpurnar sýndu fádæma baráttu undir dyggri stjórn Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar og eiga hrós skilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×