Stephen Frail, aðstoðarþjálfari Hearts, fer fögrum orðum um unglingalandsliðsmanninn Eggert Gunnþór Jónsson sem er á mála hjá félaginu. Frail vonast til að Eggert fái fleiri tækifæri til að sýna sig á næsta tímabili en hann kom við sögu í fimm leikjum liðsins í vetur.
„Maður sér hversu góður leikmaður hann er þegar orðinn þegar hann spilar með aðalliðinu, jafnvel í æfingaleikjum. Hann er góður íþróttamaður og hefur gott viðhorf. Hann er ávallt tilbúinn til að læra meira og leggja meira á sig. Hann bætir sig í hverjum leik með aðalliðinu og ég hef séð hann standa sig gríðarlega vel með varaliðinu. Stundum hefur hann meiri áhyggjur af því sem aðrir eru að gera í liðinu en að einbeita sér að eigin frammistöðu. Ég vona að hann komi sér almennilega fram á sjónarsviðið á næsta tímabili," sagði Frail í samtali við The Scotsman.
Fyrr í sumar var það ljóst að Frakkinn Julien Brellier færi frá liðinu og segir greinarhöfundur að Eggert gæti vel fyllt skarð hans á miðjunni.
Frail líkir honum einnig við Theodór Bjarnason hjá Celtic. „Þeir eru báðir gríðarlega hungraðir í árangur."