Tuttugu og átta plánetur hafa fundist á braut um aðrar stjörnur undanfarið ár. Samtals er nú vitað um 236 plánetur utan okkar sólkerfis. Vísindamenn segja milljarða byggilegra pláneta geta verið til, samkvæmt fréttavef Reuters.
„Sólkerfið okkar er ekki einsdæmi í alheiminum,“ sagði Geoffrey Marcy, prófessor í stjörnufræði við Kaliforníuháskóla. „Af tvö hundruð milljörðum stjarna í Vetrarbrautinni tel ég um tíu prósent hafa byggilegar plánetur á braut um sig. Síðan eru til þúsundir milljarða vetrarbrauta sem eru eins og okkar.“