Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur í GKG, náði bara að klára fimm holur á öðrum hring á opna Ítalíumótinu í golfi í Mílanó í gær.
Það varð að gera níu klukkutíma hlé á keppninni vegna veðurs en það er búið að rigna mikið á Ítalíu síðustu daga. Af þeim sökum náði Birgir Leifur aðeins að spila fimm holur áður en keppni var frestað vegna myrkurs.
Birgir Leifur lék allar holurnar á pari og er því áfram fimm höggum undir pari. Birgir Leifur er í 19. sæti en var í 14. sæti þegar keppnin hófst í gær.