Bíó og sjónvarp

Gunni Helga fastur í ljótustu borg Póllands

Gunnar Helgason er að setja upp söngleikinn Spin í Chorzow sem er sögð vera ljótasta borg Póllands
Gunnar Helgason er að setja upp söngleikinn Spin í Chorzow sem er sögð vera ljótasta borg Póllands

„Mér var sagt af pólskri starfstúlku í mötuneyti Þjóðleikhússins að Chorzow væri ljótasta borg Póllands,“ segir leikstjórinn Gunnar Helgason en hann er að setja upp finnska söngleikinn SPIN í Rozrywki-leikhúsinu.

Gunnar uppgötvaði reyndar á meðan hann ræddi við Fréttablaðið að úrið hans væri stopp. Sem skýri að einhverju leyti þær deilur sem upp komu eftir æfingu hópsins um morgunin. „Þau vildu ekki vinna lengur og töldu heppilegra að æfa aftur eftir general-prufuna,“ útskýrir Gunnar sem var þó viss um að þetta myndi hafast þótt á ýmsu hefði gengið við æfingar.

Gunnar segir að allt ferlið hafi tekið helmingi lengri tíma af ýmsum ástæðum. „ En þó fyrst og fremst af því að ég tala enga pólsku og þeir enga ensku þannig að það hefur alltaf þurft túlk á æfingar,“ útskýrir Gunnar sem viðurkennir að hann hafi þó lært ótal mörg pólsk blótsyrði. „Ég hef sem betur fer ekki þurft að nota þau ýkja mikið.“

Spin var fyrst sett upp í Svenska Theater í Helsinki sem er þjóðleikhús sænskumælandi Finna. „Þjóðleikhússtjórinn þar er metnaðarfullur og hann var búinn að bíða eftir verki sem hann gæti flutt út. Og greip þetta,“ útskýrir Gunni. Síðan var framleiðendum og leikhússtjórum boðið á frumsýninguna og boltinn byrjaði að rúlla. Og verkið á eftir að fara víðar, jafnvel til Bretlands. Frá Chorzow fer Gunnar síðan til smáborgarinnar Jaroslav í Rússlandi. „Rússarnir gætu hins vegar orðið erfiðir.

Þeir eru rosalega stolt þjóð og segjast ekki vilja söngleiki, það sé ekki rússneskst listform, Söngleikir hafa flestir gengið ákaflega illa í rússneska leikhúsgesti og sýningum verið hætt eftir mánuð. Allt sem er vestrænt finnst þeim ekki töff heldur vilja þeir bara rússneskt á sínar fjalir,“ útskýrir Gunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×