Þrír sautján ára piltar, með glæný ökuskírteini, voru teknir úr umferð í nótt eftir að hafa mælst á allt of miklum hraða.
Tveir voru stöðvaðir á Reykjanesbraut, annar með sex daga gamalt bílpróf og hinn með tíu daga, og sá þriðji mældist á rúmlega 150 á Sæbraut, þar sem hámarkshraði er 60 kílómetrar. Piltarnir missa allir ökuréttindi og fá svimandi háar sektir samkvæmt nýju verðskránni yfir umferðarlagabrot.
Sá sem var á rúmlega 150 fær að minnstakosti 110 þúsund króna sekt, verður sviptur ökuréttindum í þrjá mánuði, fær fjóra punkta í ökuferilsskrá þannig að hann má ekki fá nema þrjá punkta í heild ár eftir að hann fær réttindin aftur, til þess að missa þau á ný. Við akstursmat eftir ár, fær hann heldur ekki ævilangt skírteini, heldur byrjendaskírteini á ný. Refsing hinna tveggja verður heldur minni.
Fjórði ökumaðurinn, sem var stöðvaður fyrir hraðakstur í nótt, var aðeins eldri en hinir, en ný búinn að taka meirapróf, þar sem mikið er lagt upp úr að menn þekki til umferðarreglna og beiti heilbrigðri skynsemi.