Bílaumboðið B&L og GR gerðu nýlega með sér samstarfssamning um að GR sjái um framkvæmd alþjóðlegu mótaraðarinnar BMW Golf Cup International hér á landi. Samningurinn er til þriggja ára og er jafnframt sá fyrsti sem samningsaðilar gera með sér.
B&L hefur gengist fyrir BMW Golf Cup International frá árinu 2003. Á næsta ári fer það því fram í fimmta sinn, en það hefur vaxið í að verða meðal stærstu golfmóta sumarsins með á þriðja hundrað þátttakendur. Um opið mót er að ræða, háð í tveimur styrkleikaflokkum karla og einum flokki kvenna og er það eingöngu ætlað áhugakylfingum. Veitt eru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í hverjum flokki, auk þess sem sigurvegarar hvers flokks taka í boði BMW þátt í úrslitamóti mótaraðarinnar.
Úrslitamót BMW Golf Cup International þykja með þeim allra veglegustu, sér lagi hvað aðstöðu og umgjörð þeirra snertir. Mótin skiptast í einstaklingskeppni annars vegar og liðakeppni hins vegar, þar sem sigurvegarar frá hverju landi mynda hverjir sitt lit. Íslensku þátttakendunum hefur vegnað ágætlega og blönduðu sér m.a. í topp þrjú baráttuna í fyrra, auk þess sem Hansína Þorkelsdóttir hlaut verðlaun fyrir lengsta drive í kvennaflokki. Sigurvegarnir frá því í ár, þau Annel Jón Þorkelsson, GSG, Jóhann Guðmundsson, GÖ og Ingunn Einarsdóttir, GKG, munu svo halda til Suður-Afríku fyrstu vikuna í desember, þar sem BMW Golf Cup International Final fer fram.

