Viðskipti erlent

Samruni Nokia og Siemens heimilaður

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur heimilað samruna finnska farsímaframleiðandans Nokia og hins þýska Siemens. Fyrirtækin munu stofna nýtt fyrirtæki utan um framleiðslu á síma- og netkerfum,  tækjabúnaði og öðrum netlausnum, sem mun heita Nokia Siemens Network og verður þriðja stærsta fyrirtæki á þessu sviði.

Í úrskurði ESB segir næga samkeppni á þessum markaði fyrir hendi en fyrir eru L.M. Ericsson og hið sameinaða fyrirtæki Alcatel SA og Lucent Technologies Inc.

Búist er við að tekjur félagsins muni nema 16 milljörðum evra, jafnvirði 1.400 milljörðum íslenskra króna, á ári. Þá er ennfremur horft til þess að með sameiningunni verði hægt að spara 1,5 milljarða evrur, um 131 milljarð íslenskra króna, með uppsögnum á starfsfólki og ýmis konar hagræðingu í rekstri.

Þá verður markaðsvirði félagsins um 25 milljarðar evrur, um 2.000 milljarðar íslenskra króna.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×