Innlent

Mátu alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi

Fjármálaráðuneytið
Fjármálaráðuneytið MYND/Einar Ólason

Skýrsla nefndar forsætisráðherra um forsendur alþjóðlegrar fjármálastarfsemi á Íslandi og samkeppnishæfni landsins á því sviði hefur nú verið birt á heimasíðu ráðuneytisins. Ennfremur eru þar reifuð þau tækifæri sem slík starfsemi skapar og fjallað um þann ávinning sem kann að hljótast af henni fyrir efnahag og atvinnulíf í landinu.

Í skilabréfi formanns nefndarinnar, Sigurðar Einarssonar, kemur fram að nefndin hafi verið sammála um þá niðurstöðu að setja fram nokkrar hugmyndir sem ræddar hafi verið og reifaðar á fundum hennar og verðskulda að mati nefndarmanna frekari umræðu á opinberum vettvangi þótt ekki hafi verið tekin afstaða til einstakra tillagna af þeirra hálfu.

Skýrslan hefur verið kynnt í ríkisstjórn sem samþykkti, að tillögu forsætisráðherra, að fela fulltrúum þeirra þriggja ráðuneyta sem sæti áttu í nefndinni, þ.e. forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis og iðnaðar- og viskiptaráðuneytis, að vinna nánar úr tillögum nefndarinnar.

Forsætisráðuneytið efnir af þessu tilefni til ráðstefnu í Þjóðleikhúsinu í dag, föstudag, kl. 13. Forsætisráðherra, Geir H. Haarde, flytur þar ávarp. Ennfremur verða einstök atriði skýrslunnar kynnt. Ráðstefnunni lýkur með pallborðsumræðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×