Viðskipti erlent

Stærsta útboð sögunnar

Fjárfestir skrá sig fyrir bréfum í Iðnaðar- og viðskiptabankanum.
Fjárfestir skrá sig fyrir bréfum í Iðnaðar- og viðskiptabankanum. Mynd/AFP

Fjárfestar skráðu sig fyrir bréfum í kínverska iðnaðar- og viðskiptabankanum, sem er einn sá stærsti í Kína og í eigu ríkisins, fyrir jafnvirði 19 milljarða bandaríkjadala, eða 1.297 milljarða íslenskra króna, að markaðsvirði í almennu hlutafjárútboði í dag. Þetta er stærsta útboð sögunnar. Bankinn verður skráður á markað í Hong Kong og Kína í lok mánaðarins.

Mun fleiri fjárfestar skráðu sig fyrir bréfum í bankanum en búist var við, að sögn breska ríkisútvarpsins.

Stjórnvöld í Kína munu hafa verið að taka kínverskar fjármálastofnanir í gegn undanfarið til að fyrirbyggja spillingu og lélegar fjárfestingar. Á meðal aðgerða ríkisins er að kaupa víxla og gjaldfallin lán af bankanum til að leiðrétta bókhald þeirra og bæta ímynd bankanna í augum fjárfesta.

Kínverska ríkið setti iðnaðar- og viðskiptabankann á laggirnar árið 1984. Undir honum eru 21.000 útibú, 360.000 starfsmenn og viðskiptavinir eru 150 milljónir talsins.

Bankinn býst við að hagnaður ársins nemi 6 milljörðum bandaríkjadala eða um 410 milljörðum íslenskra króna, sem er 116 milljörðum krónum meira en í fyrra.

Með hlutafjárútboði iðnaðar- og viðskiptabankans var slegið út 8 ára gamalt met sem náðist með útboði í japanska farsímafyrirtækið NTT Mobile Communicatons Network. Í því skráðu fjárfestar sig fyrir bréfum í félaginu fyrir jafnvirði 18,4 milljarða dala, eða rúmlega 1.256 milljörðum króna, að markaðsvirði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×