Ben Bernanke, bankastjóri Seðlabanka Bandaríkjanna, varaði í gær við of mikilli verðbólgu vestanhafs. Hann gaf þó ekkert í skyn hvort bankinn muni hækka stýrivexti vegna þessa á næstunni.
Hagvöxtur á ársgrundvelli er nú 2,6 prósent en það er rúmlega
tvöfalt minna en gert var ráð fyrir í upphafi árs. Á fyrsta fjórðungi
ársins mældist hins vegar 5,6 prósenta hagvöxtur. Þá mældist 2,8 prósenta verðbólga í landinu í síðasta mánuði sem er 0,8 prósentum yfir verðbólgumarkmiðum bandaríska seðlabankans.
Bernanke sagði að auk þess sem mjög hafi hægt á hagvexti verði að gera umtalsverðar breytingar á almannatrygginga- og lífeyrissjóðakerfinu í Bandaríkjunum. Verði það ekki gert geti komandi kynslóðir lent í talsverðum fjárhagsvandræðum.
Bankinn hækkaði stýrivexti 17 sinnum á síðastliðnum tveimur árum en ákvað í ágúst og september að halda þeim óbreyttum í 5,25 prósentum.