Gassprenging varð í eiturefnamóttöku Sorpu í Gufunesi síðdegis í dag. Við það kviknaði eldur og allt tiltækt slökkvilið höfuðborgarsvæðiðsins kallað á vettvang.
Að sögn slökkviliðs voru 6-7 tonn af þynni í því rými þar sem sprengingin varð og eiturefni í næsta rými. Eldur kviknaði í þaki stöðvarinnar, húsbúnaði og lyftara.
Slökkvilið náði tökum á eldinum og var hann slökktur og búið að reykræsta klukkan níu. Tveir slökkviliðsmenn voru síðan á vakt með slökkvibíl fram eftir kvöldi.