Erlent

Játaði á sig morðið

John Mark Kerr, sem var handtekinn í Tælandi.
John Mark Kerr, sem var handtekinn í Tælandi. MYND/AP

Bandarískur maður, sem handtekinn var í Tælandi í nótt, hefur játað að hafa verið valdur að dauða sex ára gamallar fegurðardrottningar í Bandaríkjunum fyrir áratug. Hann segir slys hafa valdið dauða stúlkunnar. Málið er eitt umtalaðasta morðmál í Bandaríkjunum síðari ár.

Morðið á JonBenet Ramsey vakti óhug meðal Bandaríkjamanna árið 1996, ekki síst fyrir þær sakir að litla stúlkan hafði nýlega sigraði í fegurðarsamkeppni stúlkna. Slíkar keppnir hafa verið harðlega gagnrýndar og eftir að stúlkan fannst myrt á heimili sínu í Colorado sættu foreldrar hennar harðri gagnrýni fyrir að hafa att dóttur sinni út í slíkar keppnir. Hafa margir sagt þeirra þátt í dauða stúlkunnar ekki hafa verið rannsakaðan til hlýtar og sögusagnir gengið um að þau hafi átt þátt í dauða stúlkunnar.

Það var svo í nótt sem John Mark Karr, fjörutíu og eins árs Bandaríkjamaður, var handtekinn á Tælandi, grunaður um aðild að dauða JonBenet. Grunur lék einnig á að Karr hefði misnotað börn í Tælandi. Við yfirheyrslu játaði hann svo að hafa orðið JonBenet að bana en sagði það hafa verið slys. Yfirvöld segja þær fullyrðingar hljóma sérkennilega í ljósi þess að stúlkan hafði verið barin og síðan kyrkt.

Karr var kennari í Colorado þegar morðið var framið. Grunur leikur á að hann hafi reynt að ræna JonBenet og ætlað að krefja foreldra hennar um lausnargjald. Sú áætlun hafi runnið út í sandinn og hann þá myrt stúlkuna.

Karr kom til Tælands í júní frá Malasíu og mun hafa verið að leita að starfi sem kennari. Hann verður framseldur til Bandaríkjanna á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×