Innlent

Zeppelin fundið

Pólski sjóherinn hefur fundið þýska flugvélamóðurskipið Graf Zeppelin á sjávarbotni. Það hefur verið týnt í tæp sextíu ár og hafa örlög þess verið hjúpuð leyndardómi.

Pólski sjóherinn greindi frá í dag að fyrir skömmu hefðu starfsmenn pólska olíufélagsins Petrobaltic fundið skipsflak á hafsbotni í Eystrasalti um sextíu kílómetra norður af hafnarborginni Gdansk. Grunur lék á að þarna væri fundið flakið af þýska flugmóðurskipinu Graf Zeppelin, sem var nefnt eftir Ferdinand von Zeppelin greifa. Skipið var það eina sinnar tegundar sem Þjóðverjar áttu í síðari heimsstyrjöldinni. Það var tekið í gagnið í desember 1938 en kom aldrei nálægt hafsvæðum þar sem barist var. Eftir lok styrjaldarinnar tóku Rússar skipið og síðast sást til þess árið 1947 en síðan þá höfðu örlög þess verið á huldu.

Þegar starfsmenn Petrobaltic gerðu pólska sjóhernum grein fyrir fundi sínum var eftirlitsskip sent á staðinn og fjarstýrt vélmenni sent á sjávarbotn ásamt myndavél svo hægt yrði að bera kennsl á flakið. Myndir af flakinu voru síðan bornar saman við söguleg gögn og sýndi sá samanburður að þetta var flakið af Graf Zeppelin. Gögn sem nýla var veittur aðgangur að renna stoðum undir þær kenningar að rússneksi herinn hafi notað skipið til að æfa hermenn sína í því að sökkva flugmóðurskipum. Að lokum hafi svo skipið sokkið eftir að margar atlögur að því. Ekki var þó vitað hvar það sökk fyrr en nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×