Viðskipti erlent

EADS kærir dagblaðið Le Monde

Líkan af A380 risaþotu frá Airbus.
Líkan af A380 risaþotu frá Airbus. Mynd/AFP

EADS, móðurfélag evrópsku flugvélasmiðjanna Airbus, hefur lagt fram kvörtun vegna leka á upplýsingum til franska dagblaðsins Le Monde þess efnis að stjórn EADS hafi verið kunnugt um tafir á framleiðslu Airbus A380 risaþota mánuði áður en tafirnar voru formlega tilkynntar.

Að sögn EADS er hafin rannsókn á því hvernig upplýsingarnar láku til dagblaðsins. Í kvörtuninni koma m.a. fram ásakanir um þjófnað á skjölum úr eigu félagsins og birting á viðkvæmum upplýsingum.

EADS og flugvélasmiðjan Airbus hefur verið undir miklum þrýstingi vegna endurtekinna tafa á framleiðslu flugvélanna en nokkrir stórir viðskiptavinir, sem höfðu pantað risaþotur hjá fyrirtækinu, hafa snúið sér annað.

Auk þess hefur Noel Forgeard, yfirforstjóri samstæðunnar, verið sakaður um innherjasvik vegna sölu á bréfum sínum í fyrirtækinu skömmu áður en greint var frá fyrstu töfum á framleiðslu A380 risaþotanna í mars hafa hluthafar þrýst á um að honum verði sagt upp störfum.

Airbus hefur orðið af gríðarlegum tekjum vegna tafa á framleiðslu A380 risaþotunum og hefur gengi hlutabréfa í fyrirtækinu fallið um 26 prósent frá miðjum mánuðinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×