Erlent

Ástin er engin tilviljun

Ástin er engin tilviljun. Það er að minnsta kosti niðurstaða sænskrar rannsóknar. Sænskur sálfræðingur segir í viðtali við Dagens Nyheter að rannsókn sem hann gerði sýni að í flestum tilvikum verði ástarsambönd til í kunningjahópum eða í tengslum við sameiginlega vini. Reyndar fjölgar nú pörum sem hittust í gegnum netið. Þrettán hundruð Svíar á aldrinum 13 til 89 ára svöruðu spurningum Niklas Borells. Í ljós kom að fólk leitar að einhverjum sem líkist þeim sjálfum. Heiðarleiki skiptir miklu máli en kímnigáfa, skoðanir og kynlíf eru léttvægari á lóðarskál ástarinnar. Munur er á körlum og konum: fordómar um að karlar kjósi útlitið og konur stöðugleika og öryggi voru staðfestir í þessari könnun. Ást við fyrstu sýn er fátíð. Þvert á móti er algengara að vináttan komi fyrst, og svo hitni í glóðunum. Og ef reglulega er blásið í ástareldinn, segir hinn sænski sálfræðingur, getur orðið mikið bál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×