Erlent

Skotbardagi við handtöku spilltra fangavarða

Tveir létust í átökum sem brutust út þegar reynt var að handtaka fangaverði í Flórída í dag. Fangaverðirnir voru grunaðir um að hafa borgað kvenkyns föngum fyrir kynlífsþjónustu, auk þess að útvega þeim áfengi og fíkniefni. Búið var að handtaka fimm mannanna þegar sá sjötti dró upp byssu sína og hóf skothríð. Hann var annar þeirra sem létust en hinn var starfsmaður bandaríska dómsmálaráðuneytisins. Þriðji maðurinn, starfsmaður í fangelsinu, slasaðist en líðan hans er stöðug.

Fangavörðum er ekki heimilt að bera eigin vopn í fangelsinu og ekki er vitað hvernig fangavörðurinn smyglaði byssu sinni inn. Starfsmaður Alríkislögreglunnar, FBI, sem var yfir rannsókninni, sagði atvikið sorglegan blett á löggæslustarfi. Hinir grunuðu höfðu í um þrjú ár borgað kvenföngum fyrir kynlífsþjónustu. Fangaverðirnir höfðu einnig hótað föngunum fölskum ákærum ef þeir tilkynntu um misnotkunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×