Erlent

Lögmaður Saddams myrtur

Einum af aðallögfræðingum Saddams Hussein var rænt í morgun og hann myrtur. Hann er sá þriðji í verjendaliðinu sem fellur fyrir hendi morðingja.

Það var í dögun sem hópur manna í lögreglubúningum réðust inn í hús Khamis al-Obeidi, eins af lögmönnum Saddams Hussein, fyrrverandi Íraksforseta, og sökunauta hans, í höfuðborginni Bagdad og námu hann á brott. Nokkrum klukkustundum síðar fannst lík hans sundurskotið við gatnamót annars staðar í borginni. Al-Obeidi er ekki fyrsti lögmaðurinn í liði Saddams sem er myrtur því tveir starfsbræður hans mættu svipuðum örlögum í október á síðasta ári, skömmu eftir að réttarhöldin hófust. Í kjölfar þess var ákveðið að herða mjög öryggisráðstafanir tengdum réttarhöldunum og meðal annars með því að flytja stærstan hluta verjendaliðsins til Jórdaníu. Al-Obeidi hélt hins vegar búsetu sinni í Bagdad og hefur nú goldið fyrir það með lífi sínu. Annar verjandi Saddams sagði Bandaríkjamenn bera ábyrgð á morðinu þar sem þeir hafi slakað á öryggiskröfunum, beinlínis til að spilla fyrir sanngjörnum réttarhöldum.

Morðið hefur verið fordæmt harðlega í Írak í dag en enginn hefur lýst yfir ábyrgð á því. Hitt er svo víst að margir vilja Saddam feigan og því koma margir til greina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×