Erlent

Mikil öryggisgæsla í Vín vegna heimsóknar Bush

Bush Bandaríkjaforseta, og Lauru konu hans, heilsað við komuna til Austurríkis í kvöld.
Bush Bandaríkjaforseta, og Lauru konu hans, heilsað við komuna til Austurríkis í kvöld. MYND/AP

Mikil öryggisgæsla verður í Vín í Austurríki í kvöld og á morgun en Bush Bandaríkjaforseti kom til borgarinnar í kvöld til fundar við fulltrúa Evrópusambandsins sem verður á morgun. Þrjú þúsund lögreglumenn verða að störfum í borginni næsta sólahring en búist er við mótmælum vegna heimsóknar forsetans.

Það var síðast árið 1979 sem bandarískur forseti heimsótti Austurríki en þá undirrituðu Jimmy Carter og Leonid Brezhnev, Sovétleiðtogi, annað samkomulag ríkjanna um að koma í veg fyrir notkun kjarnorkuvopna, svokallað SALT II samkomulag.

Fundur Bandaríkjaforseta og fulltrúar Evrópusambandsins er árlegur og haldinn nú í Vín þar sem Austurríkismenn eru í forsvari fyrir sambandið.

Búist er við að Bandaríkjaforseti reyni að fá Evrópusambandaríki til að afleggja landbúnaðarstyrki þannig að viðræður um alþjóðlegan fríverslunarsamning geti haldið áfram. Einnig ætli hann að þrýsta á um að sambandsríkin veiti alla þá aðstoð sem þau hafi heitið við uppbyggingu í Írak og reyna að tryggja stuðning þeirra í kjarnorkudeilunni við Írana.

Áætlað er að gert verði óformlegt samkomulag um að Evrópusambandið og Bandaríkin reyni saman að tryggja olíu- og gasbirgðir og komi á fót nefnd þar sem fjallað verði um loftslagsbreytingar.

Búist er við mótmælum í Vín á meðan á heimsókn forsetans stendur og því verða þrjú þúsund lögreglumenn að störfum og sérhönnuð sprengjuleitartæki verði notuð til að leita á fólki. Ætla má að andstæðingar Íraksstríðsins láti í sér heyra og krefjist þess einnig að Guantanamo-fangabúðunum á Kúbu verði lokað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×