Erlent

Varað við hryðjuverkamanni 2003

Bretar máttu vita þegar árið 2003 að einn fjögurra hryðjuverkamanna, sem átti þátt í dauða 52 í hryðjuverkaárás á Lundúnir í fyrra, væri maður sem réttast væri að hafa gætur á. Bandarísk stjórnvöld vöruðu þá bresku leyniþjónustuna við höfuðpaurnum sem þá þegar var bannað að fljúga til Bandaríkjanna.

Þetta kemur fram í útdrætti úr bók Pulitzer-verðlaunahafans Rons Suskinds sem birtur er í breska dagblaðinu Time í dag. Þar segir að bandaríska leyniþjónustan hafi varað breska starfsbræður sína við Mohammad Sidique Khan þegar árið 2003. Þá var honum bannað að fljúga til Bandaríkjanna. Í bókinni segir að bandarískir sérfræðingar í málefnum al-Kaída hryðjuverkasamtakanna hafi fylgst með Khan fyrir bandarísku leyniþjónustuna allar götur frá árinu 2002.

Í skýrslu þingnefndar um hryðjuverkaárasirnar, sem kynnt var fyrir skömmu, segir að breskir leyniþjónustumenn hafi haft tækifæri til að fylgjast með Khan á árunum 2003 og 2004 en ekki var talin þörf á því þar sem hann væri á jaðri samtakanna og ekki talinn líklegur til stórræða.

52 fórust í árásunum í fyrra og var Khan einn fjögurra sem sprengdi sig í loft upp.

Fleiri uppljóstranir er að finna í bók Suskinds. Þar segir að al Kaída hafi skipulagt umfangsmikla gasárás í neðanjarðarlestum New York borgar í ársbyrjun 2003 en hætti við áður en af árásinni varð. Áætlað var að helypa vetnisblásýrugasi inn í vagna neðanjarðarlestakerfisins. Sérfræðingar telja að mun fleiri hefðu látið lífið í slíkri árás en í árásunum ellefta september 2001. Lögreglan í New York segist hafa vitað af fyrirhugaðri árás og hafi undirbúið sig undir hana en Alríkislögreglan FBI vildi ekki staðfesta smáatriði í bók Suskinds.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×