Viðskipti erlent

Ný kauphöll í Bretlandi?

Mynd/AFP

Samruni kauphallarinnar í New York (NYSE) og samevrópska hlutabréfamarkaðarins Euronext gæti leitt til þess að nýr hlutabréfamarkaður verði stofnaður í Lundúnum í Bretlandi til höfuðs kauphöllinni sem þar er fyrir. Þetta segir John Thain, forstjóri NYSE í samtali við breska blaðið Financial Times.

NYSE hafði áhuga á yfirtöku á kauphöllinni í Lundúnum (LSE)en eftir kaup Nasdaq-hlutabréfamarkaðarins á fjórðungshlut í LSE runnu þær væntingar út í sandinn. Thain sagði í samtali við blaðið að NYSEgæti sett á laggirnar nýja kauphöll í Bretlandi til móts við LSE.

Ástæðan fyrir samrunatilraunum bandarískra kauphalla við evrópskar kauphallir er m.a. sú að þeim bandarísku hefur ekki tekist að laða erlend fyrirtæki til skráningar í Bandaríkjunum í kjölfar hertari reglugerða um verðbréfamarkaði og fyrirtækjaskráningu í kjölfar Enron-hneykslisins.

Yfirtökutilboð NYSE í samevrópska hlutabréfamarkaðinn Euronext, sem rekur kauphallir í Belgíu og Hollandi, Frakklandi og í Portúgal, hefur þegar verið tilkynnt en með samruna kauphallanna verður til fyrsta kauphöllin með viðskipti beggja vegna Atlantshafsins. Þýska kauphöllin, Deutsche Börse, hefur lengi haft áhuga á samruna við Euronext og hefur verið haft eftir forstjóra kauphallarinnar að þær áætlanir hafi ekki verið blásnar af þrátt fyrir samruna Euronext og NYSE.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×