Forsvarsmenn verðbréfasjóðsins Permira hafa ákveðið að draga til baka kauptilboð sitt í bóka- og tónlistarverslunarkeðjunni HMV. Lýstu þeir yfir vonbrigðum vegna þess að stjórn HMV ákvað í síðustu viku að taka ekki yfirtökutilboði sjóðsins upp á 210 pens á hlut, eða 845,4 milljónir punda.
Í yfirlýsingu frá verðbréfasjóðnum til kauphallarinnar í Lundúnum kemur fram að kauptilboðið hafi verið mjög gott. Lýsir sjóðurinn yfir vonbrigðum með ákvörðun stjórnar HMV og því hætt við frekara tilboð í keðjuna.
Verðbréfasjóðurinn gerði tilboð í HMV í febrúar upp á 190 pens á hlut en stjórn HMV hafnaði því á þeim forsendum að það væri of lágt.
Gengi hlutabréfa í HMV lækkuðu um 5,25 prósent í kauphöllinni í Lundúnum nú síðdegis.