Óvíst er að Sony nái að gefa út Playstation 3, næstu kynslóð leikjatölvunnar vinsælu, í vor eins og ætlað var vegna þess að ekki hefur verið lokið við gerð ákveðinna staðla sem ný tækni hennar á að styðjast við. Fréttavefur Ríkisútvarpsins breska, BBC, greindi frá þessu í dag.
Hægt verður að leika tölvuleiki á PS3 tölvunni auk þess að spila tónlist og horfa á vídeó. Tölvan keppir við Microsoft Xbox 360 og Nintendo Revolution.
PS3 tölvan á að vera búin allra nýjustu tækni varðandi DVD spilun, örgjörva og myndvinnslu, en að sögn Sony kann útgáfa hennar að frestast verði ekki gengið frá staðlamálum í iðnaðinum innan skamms.
"Við stefnum á vorið, en höfum ekki gefið út á hvaða markaðssvæðum," er haft eftir talsmanni tölvuleikjadeildar Sony. Staðlarnir sem beðið er eftir tengjast nýrri Blu-ray DVD tækni, en þar er notast við bláan geisla í stað rauðs nú, auk staðla tengdum út og inntaki myndar og hljóðs.