Ráðist verður í annan áfanga fegrunarátaksins Tökum upp hanskann fyrir Reykjavík á laugardaginn næstkomandi. Að þessu sinni verður tekið til hendinni í Grundarhverfi á Kjalarnesi.
Til undirbúnings var haldinn samráðsfundur með íbúum hverfisins síðastliðinn mánudag. Meðal þeirra sem sátu fundinn fyrir hönd Reykjavíkurborgar voru Gísli Marteinn Baldursson, formaður umhverfisráðs, og Óskar Bergsson, formaður framkvæmdaráðs.
Á fundinum voru línurnar lagðar um hvernig staðið verður að hreinsuninni. Meðal verkefna er að tína rusl í hverfinu og leggja túnþökur. Þá verða fótboltamörk lagfærð og girðingar lagaðar þar sem þörf þykir.