Þrír menn fórust í miklu óveðri sem gekk yfir Búdapest í Ungverjalandi á sunnudag. Tveggja er enn saknað, en nær 300 særðust í veðrinu, þar af 40 lífshættulega.
Fólkið var að horfa á flugeldasýningu við Dóná til minningar um fyrsta konung landsins, þegar veðrið versnaði til muna. Tveir mannanna létust þegar tré féll á þá en óljóst er hvernig sá þriðji týndi lífi, að sögn lögregluyfirvalda. Fólkið sem saknað er var á báti á Dóná þegar honum hvolfdi í veðrinu.
Forsætisráðherra landsins fundaði með yfirvöldum í gær til að kynna sér hvort fresta hefði átt hátíðarhöldunum vegna veðurs.