Er framtíðinni lokið? 12. ágúst 2006 00:01 Framtíðin rennur aldrei upp því þegar að því kemur þá er hún orðin samtíð. Að því leyti er framtíðin ekki áþreifanlegt fyrirbæri. Hennar tími er aldrei kominn. Samt er framtíðin líka ávallt til staðar, í þeim væntingum sem fólk gerir sér til síðari tíma, að þeir muni skera sig úr, að áföngum verði náð og að lífið verði kannski eilítið betra en í samtímanum. Mannkynið hefur ávallt litið fullt væntinga til framtíðar. Trúuðum veitir framtíðin fyrirheit um betra líf í návist guðdómsins eða endurfæðingu til æðra tilverustigs. Á 19. og 20. öld horfðu vísindamenn til himins í öðrum tilgangi. Þá dreymdi ekki lengur um himnaguðinn heldur ferðir til annarra stjarna og jafnvel kynni af Mars- eða mánabúum. Á 19. öld voru ritaðar skáldsögur um framtíð þar sem öllu misrétti hefði verið eytt, vinnutími yrði lítill sem enginn, hægt yrði að nota greiðslukort í stað peninga og að fólk myndi geta keypt sér lífsnauðsynjar í risavöxnum verslunarmiðstöðvum. Draumurinn um betri framtíð á jörðu tók við af draumnum um framhaldslíf. Síðan hætti fólk að dreyma. Sú kynslóð sem nú byggir Vesturlönd virðist að þessu leyti ólík fyrri kynslóðum. Fólk er meira eða minna hætt að líta til himins fullt væntinga. Þar eru engir Marsbúar, engin ónumin lönd. Framfaradraumar eru brostnir því að sögunni er lokið og við höfum það harla gott. Fólk er orðið hávaxið, heilsugott og langlíft; nú er á hvers manns færi að eignast tæki og öðlast þægindi sem ekki einu sinni auðmenn gat dreymt um á fyrri tímum. Kynslóð eftir kynslóð hefur verið sagt að fólk hafi aldrei haft það betra uns við erum farin að trúa því sjálf. Draumurinn er úti og orðinn að veruleika. Þetta væntingaleysi til framtíðarinnar endurspeglast í ýmsu því sem einkennir samtímann öðru fremur. Taumlausri neysluhyggju, svo dæmi sé tekið. Til hvers að byggja til framtíðar þegar áfangastaðurinn er núið? Núna á að njóta lífsins í botn og veita sér allt sem hugurinn girnist. Við erum komin þangað sem við ætluðum okkur að vera og ætlum ekki að hreyfa okkur þaðan. Og þess vegna erum við nútímafólkið líka svolítið hrædd. Hrædd um að missa lífsgæðin og frelsið sem fylgir þeim. Hrædd vegna þess að öll tólin og þægindin sem við teljum okkur þurfa til að lifa góðu lífi muni kannski spilla umhverfinu og grafa undan lífsskilyrðum komandi kynslóða. Hrædd vegna þess að kannski þurfum við að fórna lífsgæðunum til að lifa af. Hrædd út af innflytjendunum sem koma til okkar og vilja eiga þátt í lífsgæðum okkar. Það þarf að standa vörð um velferðina, jafnvel með því að fórna hluta af henni. Í framtíðinni bíður ekkert nema niðurskurður og sparnaður. Það þarf líka að verja frelsið, jafnvel með því að fórna hluta af því. Lögregluríkið er handan við hornið. Óttinn við breytta tíma nær ekki endilega til allra heimshorna. Kínverja og Indverja dreymir um að jafna metin við Evrópu hvað snertir auð og velferð. Suður-Ameríkumenn dreymir um jöfnuð og frelsi sem þeir hafa aldrei notið. Arabaheiminn dreymir um framtíð sem er öðruvísi en samtíminn, hvort sem halda skal afturábak eða áfram. Bandaríkjamenn eru ekki tilbúnir til að gefa samtímann upp á bátinn og hefja með reglulegu millibili nýtt stríð til að tryggja að 21. öldin verði „ný amerísk öld". Gallinn við líf „í núinu" er að það getur ekki varað að eilífu. Fyrr eða síðar munu breytingar eiga sér stað á lífsskilyrðum okkar, jafnvel róttækar breytingar. Þær þurfa ekki að valda neinum kvíða nema þeim sem trúa því að núna sé tíminn til að njóta, allir draumar hafi ræst sem geti það eða eigi að rætast. Þeim sem trúa ekki á möguleika mannsins til að bæta sig. Fyrir hina, sem hafna því að nútíminn sé takmark í sjálfu sér og að sagan sé komin á enda, hljóta breyttir tímar jafnframt að vera spennandi tímar. Mannkynið hefur gert nóg af því að hylla sjálft sig. Við þurfum aftur að fara að huga að því hvernig við getum bætt okkur sjálf. Við þurfum aftur að hefja upp augun til himins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Sverrir Jakobsson Mest lesið Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Valkyrjur: Ekki falla á prófinu! Gunnar Hólmsteinn Ársælsson Skoðun 13,5 milljónir Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun Hvammsvirkjun og meintur orkuskortur Ólafur Páll Jónsson Skoðun Kóngar vímuefnaheimsins Lára G. Sigurðardóttir Skoðun Að vera léttvægur fundinn Guðmunda G. Guðmundsdóttir Skoðun Hvað með það þótt sérfræðingar að sunnan fari í verkfall? Silja Bára Ómarsdóttir Skoðun Halldór 18.01.2025 Halldór Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Framtíðin rennur aldrei upp því þegar að því kemur þá er hún orðin samtíð. Að því leyti er framtíðin ekki áþreifanlegt fyrirbæri. Hennar tími er aldrei kominn. Samt er framtíðin líka ávallt til staðar, í þeim væntingum sem fólk gerir sér til síðari tíma, að þeir muni skera sig úr, að áföngum verði náð og að lífið verði kannski eilítið betra en í samtímanum. Mannkynið hefur ávallt litið fullt væntinga til framtíðar. Trúuðum veitir framtíðin fyrirheit um betra líf í návist guðdómsins eða endurfæðingu til æðra tilverustigs. Á 19. og 20. öld horfðu vísindamenn til himins í öðrum tilgangi. Þá dreymdi ekki lengur um himnaguðinn heldur ferðir til annarra stjarna og jafnvel kynni af Mars- eða mánabúum. Á 19. öld voru ritaðar skáldsögur um framtíð þar sem öllu misrétti hefði verið eytt, vinnutími yrði lítill sem enginn, hægt yrði að nota greiðslukort í stað peninga og að fólk myndi geta keypt sér lífsnauðsynjar í risavöxnum verslunarmiðstöðvum. Draumurinn um betri framtíð á jörðu tók við af draumnum um framhaldslíf. Síðan hætti fólk að dreyma. Sú kynslóð sem nú byggir Vesturlönd virðist að þessu leyti ólík fyrri kynslóðum. Fólk er meira eða minna hætt að líta til himins fullt væntinga. Þar eru engir Marsbúar, engin ónumin lönd. Framfaradraumar eru brostnir því að sögunni er lokið og við höfum það harla gott. Fólk er orðið hávaxið, heilsugott og langlíft; nú er á hvers manns færi að eignast tæki og öðlast þægindi sem ekki einu sinni auðmenn gat dreymt um á fyrri tímum. Kynslóð eftir kynslóð hefur verið sagt að fólk hafi aldrei haft það betra uns við erum farin að trúa því sjálf. Draumurinn er úti og orðinn að veruleika. Þetta væntingaleysi til framtíðarinnar endurspeglast í ýmsu því sem einkennir samtímann öðru fremur. Taumlausri neysluhyggju, svo dæmi sé tekið. Til hvers að byggja til framtíðar þegar áfangastaðurinn er núið? Núna á að njóta lífsins í botn og veita sér allt sem hugurinn girnist. Við erum komin þangað sem við ætluðum okkur að vera og ætlum ekki að hreyfa okkur þaðan. Og þess vegna erum við nútímafólkið líka svolítið hrædd. Hrædd um að missa lífsgæðin og frelsið sem fylgir þeim. Hrædd vegna þess að öll tólin og þægindin sem við teljum okkur þurfa til að lifa góðu lífi muni kannski spilla umhverfinu og grafa undan lífsskilyrðum komandi kynslóða. Hrædd vegna þess að kannski þurfum við að fórna lífsgæðunum til að lifa af. Hrædd út af innflytjendunum sem koma til okkar og vilja eiga þátt í lífsgæðum okkar. Það þarf að standa vörð um velferðina, jafnvel með því að fórna hluta af henni. Í framtíðinni bíður ekkert nema niðurskurður og sparnaður. Það þarf líka að verja frelsið, jafnvel með því að fórna hluta af því. Lögregluríkið er handan við hornið. Óttinn við breytta tíma nær ekki endilega til allra heimshorna. Kínverja og Indverja dreymir um að jafna metin við Evrópu hvað snertir auð og velferð. Suður-Ameríkumenn dreymir um jöfnuð og frelsi sem þeir hafa aldrei notið. Arabaheiminn dreymir um framtíð sem er öðruvísi en samtíminn, hvort sem halda skal afturábak eða áfram. Bandaríkjamenn eru ekki tilbúnir til að gefa samtímann upp á bátinn og hefja með reglulegu millibili nýtt stríð til að tryggja að 21. öldin verði „ný amerísk öld". Gallinn við líf „í núinu" er að það getur ekki varað að eilífu. Fyrr eða síðar munu breytingar eiga sér stað á lífsskilyrðum okkar, jafnvel róttækar breytingar. Þær þurfa ekki að valda neinum kvíða nema þeim sem trúa því að núna sé tíminn til að njóta, allir draumar hafi ræst sem geti það eða eigi að rætast. Þeim sem trúa ekki á möguleika mannsins til að bæta sig. Fyrir hina, sem hafna því að nútíminn sé takmark í sjálfu sér og að sagan sé komin á enda, hljóta breyttir tímar jafnframt að vera spennandi tímar. Mannkynið hefur gert nóg af því að hylla sjálft sig. Við þurfum aftur að fara að huga að því hvernig við getum bætt okkur sjálf. Við þurfum aftur að hefja upp augun til himins.
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun