Erlent

Hryðjuverkatilræðinu afstýrt

Þröngt á Heathrow-flugvelli Margt var um manninn á Heathrow í gær. Gífurleg öryggisgæsla var á vellinum og fjölmörgum flugferðum var aflýst og seinkað. Farþegar á Keflavíkurflugvelli urðu margir hverjir einnig fyrir verulegum töfum.
Þröngt á Heathrow-flugvelli Margt var um manninn á Heathrow í gær. Gífurleg öryggisgæsla var á vellinum og fjölmörgum flugferðum var aflýst og seinkað. Farþegar á Keflavíkurflugvelli urðu margir hverjir einnig fyrir verulegum töfum. MYND/AP

Bresk yfirvöld björguðu í gær farþegum fjölda bandarískra flugvéla frá tortímingu. Talið er að hryðjuverkamenn hafi ætlað að sprengja vélarnar á flugi með sprengiefni í fljótandi formi, sem átti að smygla um borð í handfarangri. Vélarnar áttu allar að fljúga frá Heathrow-flugvelli í Lundúnum. Öll starfsemi á flugvellinum lamaðist um tíma, meðan föggur farþega og fatnaður voru grandskoðuð. Allur handfarangur var bannaður.

Öryggiskröfur á Keflavíkurflugvelli í flugi til Bandaríkjanna voru einnig hertar í gær að kröfu bandarískra flugmálayfirvalda.

Lögreglan í Bretlandi hafði hendur í hári 24 grunaðra manna og sættu þeir yfirheyrslum í gær. Haft var eftir málsvara lögreglunnar að mennirnir handteknu væru lykilmenn samsærisins, en að rannsókn væri langt í frá lokið.

Háttsettir bandarískir, franskir og pakistanskir embættismenn hafa lýst því yfir að margir hinna grunuðu séu breskir þegnar, sem eigi rætur að rekja til Pakistans og séu íslamstrúar. Það hefur ekki verið staðfest af breskum yfirvöldum. Forseti Bandaríkjanna lét hafa eftir sér að atburðir gærdagsins sýndu fram á að bandaríska þjóðin ætti í stríði við „íslamska fasista“.

Fjölmargir sérfræðingar beggja megin Atlantshafs tengdu tilræðið við hryðjuverkanet al-Kaída og var haft á orði að í gær hefði staðið til að fremja mesta hryðjuverk síðan 11. september 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×