Erlent

Ríkisstjórnin krafin svara

Göran Persson Sænski forsætisráðherrann hefur lítið viljað tjá sig um kjarnorkumálin nú þegar rúmur mánuður er til kosninga.
Göran Persson Sænski forsætisráðherrann hefur lítið viljað tjá sig um kjarnorkumálin nú þegar rúmur mánuður er til kosninga. MYND/nordicphotos/afp

Nú, þegar aðeins rúmur mánuður er til þingkosninga í Svíþjóð, kröfðust þingmenn bæði stjórnar- og stjórnarandstöðuflokka þess í gær að ríkisstjórnin skýrði stefnu sína í kjarnorkumálum í kjölfar þess að slökkt hefur verið á helmingi allra kjarnaofna í landinu.

Slökkt var á ofnunum af öryggis- og viðhaldsástæðum eftir atvik sem varð í einu kjarnorkuverinu í síðustu viku, en það þótti sýna að öryggiskerfi kjarnorkuveranna væru ekki eins áreiðanleg og vera ber. Sænsk kjarnorkumálayfirvöld sögðu í gær að ekki stæði til að slökkva á fleiri ofnum og þrátt fyrir að fimm af tíu kjarnaofnum landsins væru ekki í gangi ætti það ekki að valda teljandi röskun á raforkumarkaðnum. Að öllu jöfnu sjá kjarnorkuverin Svíum fyrir helmingi raforkuþarfar sinnar.

Göran Persson forsætisráðherra og aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni hafa lítið viljað tjá sig um málið, en stjórnin er bundin af því að árið 1980 var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að Svíar hættu að nota kjarnorku. Nýjustu skoðanakannanir hafa aftur á móti sýnt afgerandi stuðning Svía við að halda í kjarnorkuna. Árið 1997 kynnti stjórnin áætlun um að úrelda alla þá tólf kjarnaofna sem þá voru starfræktir í landinu. Tveimur hefur verið lokað síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×