Smækkun almættisins 2. ágúst 2006 00:01 Í liðinni viku voru liðin 350 ár frá því að einn af helstu heimspekingum síðari alda, hollenski gyðingurinn Spinoza, var gerður útlægur úr eigin samfélagi. Sök hans var að hafna hinum helga sannleika þessa samfélags. Hann neitaði því að gyðingar væru hin útvalda þjóð guðs. Hann hafnaði því að í gyðingdómi, eða í nokkrum öðrum trúbrögðum, væri að finna hina einu sönnu þekkingu á almættinu, sem væri ekki persóna og deildi ekki eiginleikum með mannfólkinu. Þeir sem bannfærðu Spinoza fyrir að efast um sannleika gyðingdóms voru eins og hann sjálfur komnir af fólki sem Spánverjar og síðar Portúgalir höfðu gert útlægt fyrir að efast um eina leyfilega sannleikann í þeim löndum, kristna trú. Líklega voru það einungis mestu áhugamenn um heimspeki sem fóru í sparifötin sín til að minnast bannfæringar Spinoza. Fáir eiga þó mikið brýnna erindi við okkur um þessar mundir.. Skoðanir okkar allra byggjast á flóknum flokkunar og túlkunarkerfum sem við höfum komið okkur upp til að skilja heiminn. Við vitum auðvitað ekkert annað en það sem þessi kerfi matreiða handa okkur. Sá einfaldi sannleikur er hins vegar ekki viðtekinn. Menn telja sig sjá heiminn eins og hann er og undra sig oft á misskilningi annarra. Efniviður í þessi flokkunar og túlkunarforrit okkar kemur auðvitað víða að. Menn sömu menningar og sömu trúar sjá hlutina oft með líkari hætti en þeir sem eru af annarri menningu trú. Það af þessum efniviði sem menn telja að hafi komið frá almættinu í gegnum hina einu sönnu trú býr oft til skoðanir sem eru í senn viðkvæmar fyrir einstaklinginn og harðar gagnvart öðrum. Slíkar skoðanir eru til vaxandi vandræða í heiminum. Ekki vegna þess að menn hneigist meira til einfaldrar trúar og enn einfaldari mynda af heiminum en áður, heldur vegna þess að heimurinn er orðinn samtengdari og samþættari. Heimar bókstafstrúarmannanna í Miðausturlöndum eða Bandaríkjunum komu okkur lítið við fyrir skemmstu en gera það með beinum hætti nú. Trúarlegar hugmyndir manna þar eystra og í Bandaríkjunum kosta til að mynda mörg mannslíf á hverjum degi í Líbanon og Palestínu. Nýleg könnun þar vestra sýndi að 36% Bandaríkjamanna trúa mjög undarlegri kenningu sem byggist á afar hæpinni túlkun á Biblíunni. Kenningin er sú að viðgangur Ísraelsríkis sé nauðsynleg forsenda þess að Jesú kristur snúi aftur til jarðarinnar. Þeir sem hafa áhuga á endurkomu krists ættu þess vegna að styðja Ísrael. Núorðið skiptir þessi stuðningur meira máli en styrkur samfélags gyðinga í Bandaríkjununum. Ísraelsmenn ættu hins vegar kannski að hafa áhyggjur af því að það fylgir með í þessari trú að allir gyðingar sem neita að taka kristna trú við endurkomu frelsarans muni fara til helvítis. Hlutfall Bandaríkjamanna sem trúa þessu virðist álíka hátt og hlutfall Reykvíkinga í íbúatölu Íslands. Hlutfall þeirra sem trúa frekar sögum um sköpun heimsins en vísindum er enn hærra hjá þessari menntuðu þjóð. Forseti Bandaríkjanna beitti líka neitunarvaldi af trúarástæðum um daginn til að koma í veg fyrir notkun stofnfruma í rannsóknum sem margir telja að gætu leitt til lækninga á banvænum kvillum. Fósturfrumur eru í hans augum helgari en lifandi börn í Líbanon og Palestínu eða jafnvel í Bandaríkjunum þar sem barnadauði af völdum fátæktar er víða hærri en á Kúbu eða í borgum Kína. Heimur Spinoza var ekki án guðs, þvert á móti, hann sá guð í öllu. Líkt og margir spekingar Indlands sagði hann guð einan hafa sjálfstæða og eiginlega tilvist. Umræður manna um guðdóminn snúast hins vegar yfirleitt um þá sjálfa og þá mannlegu eiginleika sem þeir yfirfæra á almættið. Hér er auðvitað ekki rými til umræðna um Spinoza og umdeilanlegar röksemdir hans en erindi hans við samtímann er greinilegt. Tilhneiging manna til að koma sér upp hentugum skoðunum, búa til í kringum þær notalega fordóma og fá síðan guð í lið með sér virðist ekki hafa minnkað í aldanna rás. Trúarbrögðin mæta þörfum manna til að aðgreina hópinn sinn frá öðrum hópum. Í samtímanum eru allir hópar í návígi. Smækkun almættisins niður í það óttaslegna og yfirgangssama í mannsálinni er hættulegri en áður. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Ormur Halldórsson Skoðanir Mest lesið Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Valkyrjur: Ekki falla á prófinu! Gunnar Hólmsteinn Ársælsson Skoðun 13,5 milljónir Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun Hvammsvirkjun og meintur orkuskortur Ólafur Páll Jónsson Skoðun Kóngar vímuefnaheimsins Lára G. Sigurðardóttir Skoðun Að vera léttvægur fundinn Guðmunda G. Guðmundsdóttir Skoðun Hvað með það þótt sérfræðingar að sunnan fari í verkfall? Silja Bára Ómarsdóttir Skoðun Halldór 18.01.2025 Halldór Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Í liðinni viku voru liðin 350 ár frá því að einn af helstu heimspekingum síðari alda, hollenski gyðingurinn Spinoza, var gerður útlægur úr eigin samfélagi. Sök hans var að hafna hinum helga sannleika þessa samfélags. Hann neitaði því að gyðingar væru hin útvalda þjóð guðs. Hann hafnaði því að í gyðingdómi, eða í nokkrum öðrum trúbrögðum, væri að finna hina einu sönnu þekkingu á almættinu, sem væri ekki persóna og deildi ekki eiginleikum með mannfólkinu. Þeir sem bannfærðu Spinoza fyrir að efast um sannleika gyðingdóms voru eins og hann sjálfur komnir af fólki sem Spánverjar og síðar Portúgalir höfðu gert útlægt fyrir að efast um eina leyfilega sannleikann í þeim löndum, kristna trú. Líklega voru það einungis mestu áhugamenn um heimspeki sem fóru í sparifötin sín til að minnast bannfæringar Spinoza. Fáir eiga þó mikið brýnna erindi við okkur um þessar mundir.. Skoðanir okkar allra byggjast á flóknum flokkunar og túlkunarkerfum sem við höfum komið okkur upp til að skilja heiminn. Við vitum auðvitað ekkert annað en það sem þessi kerfi matreiða handa okkur. Sá einfaldi sannleikur er hins vegar ekki viðtekinn. Menn telja sig sjá heiminn eins og hann er og undra sig oft á misskilningi annarra. Efniviður í þessi flokkunar og túlkunarforrit okkar kemur auðvitað víða að. Menn sömu menningar og sömu trúar sjá hlutina oft með líkari hætti en þeir sem eru af annarri menningu trú. Það af þessum efniviði sem menn telja að hafi komið frá almættinu í gegnum hina einu sönnu trú býr oft til skoðanir sem eru í senn viðkvæmar fyrir einstaklinginn og harðar gagnvart öðrum. Slíkar skoðanir eru til vaxandi vandræða í heiminum. Ekki vegna þess að menn hneigist meira til einfaldrar trúar og enn einfaldari mynda af heiminum en áður, heldur vegna þess að heimurinn er orðinn samtengdari og samþættari. Heimar bókstafstrúarmannanna í Miðausturlöndum eða Bandaríkjunum komu okkur lítið við fyrir skemmstu en gera það með beinum hætti nú. Trúarlegar hugmyndir manna þar eystra og í Bandaríkjunum kosta til að mynda mörg mannslíf á hverjum degi í Líbanon og Palestínu. Nýleg könnun þar vestra sýndi að 36% Bandaríkjamanna trúa mjög undarlegri kenningu sem byggist á afar hæpinni túlkun á Biblíunni. Kenningin er sú að viðgangur Ísraelsríkis sé nauðsynleg forsenda þess að Jesú kristur snúi aftur til jarðarinnar. Þeir sem hafa áhuga á endurkomu krists ættu þess vegna að styðja Ísrael. Núorðið skiptir þessi stuðningur meira máli en styrkur samfélags gyðinga í Bandaríkjununum. Ísraelsmenn ættu hins vegar kannski að hafa áhyggjur af því að það fylgir með í þessari trú að allir gyðingar sem neita að taka kristna trú við endurkomu frelsarans muni fara til helvítis. Hlutfall Bandaríkjamanna sem trúa þessu virðist álíka hátt og hlutfall Reykvíkinga í íbúatölu Íslands. Hlutfall þeirra sem trúa frekar sögum um sköpun heimsins en vísindum er enn hærra hjá þessari menntuðu þjóð. Forseti Bandaríkjanna beitti líka neitunarvaldi af trúarástæðum um daginn til að koma í veg fyrir notkun stofnfruma í rannsóknum sem margir telja að gætu leitt til lækninga á banvænum kvillum. Fósturfrumur eru í hans augum helgari en lifandi börn í Líbanon og Palestínu eða jafnvel í Bandaríkjunum þar sem barnadauði af völdum fátæktar er víða hærri en á Kúbu eða í borgum Kína. Heimur Spinoza var ekki án guðs, þvert á móti, hann sá guð í öllu. Líkt og margir spekingar Indlands sagði hann guð einan hafa sjálfstæða og eiginlega tilvist. Umræður manna um guðdóminn snúast hins vegar yfirleitt um þá sjálfa og þá mannlegu eiginleika sem þeir yfirfæra á almættið. Hér er auðvitað ekki rými til umræðna um Spinoza og umdeilanlegar röksemdir hans en erindi hans við samtímann er greinilegt. Tilhneiging manna til að koma sér upp hentugum skoðunum, búa til í kringum þær notalega fordóma og fá síðan guð í lið með sér virðist ekki hafa minnkað í aldanna rás. Trúarbrögðin mæta þörfum manna til að aðgreina hópinn sinn frá öðrum hópum. Í samtímanum eru allir hópar í návígi. Smækkun almættisins niður í það óttaslegna og yfirgangssama í mannsálinni er hættulegri en áður.
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun