Erlent

Þykir áfall fyrir Tony Blair

Levy lávarður. Handtaka hans  gæti hraðað brotthvarfi Blairs úr stjórnmálum.
Levy lávarður. Handtaka hans gæti hraðað brotthvarfi Blairs úr stjórnmálum.

Breska lögreglan hefur yfirheyrt 48 manns í tengslum við ásakanir um að Tony Blair forsætisráðherra hafi séð til þess að fjársterkir einstaklingar fengju sæti í lávarðadeild breska þingsins í skiptum fyrir veglegan fjárstuðning við Verkamannaflokkinn.

Náinn félagi Blairs og sérlegur sendifulltrúi hans í Mið-Austurlöndum, Levy lávarður, sem hefur séð um fjáröflun fyrir Verkamannaflokkinn, var handtekinn á miðvikudag í tengslum við þetta mál, en honum var síðan sleppt úr haldi gegn tryggingu.

Lögreglan segir að Levy hafi verið handtekinn til þess að hún geti komist yfir skjöl, sem nauðsynleg eru fyrir rannsóknina. Ekki er víst að Levy verði ákærður, en handtakan þykir áfall fyrir Blair og gæti hraðað brotthvarfi hans úr stjórnmálum.

Ekkert hefur verið gefið upp um það hvort Blair sé sjálfur meðal þeirra, sem lögreglan hefur kallað til yfirheyrslu, en skrifstofa Blairs heldur því fram að lögreglan hafi ekki sóst eftir því að yfirheyra forsætisráðherrann.

Lögreglan mun skila frá sér skýrslu til saksóknara síðar á árinu, og þá fyrst verður tekin ákvörðun um hvort málið kemur til kasta dómstóla.

Blair hefur viðurkennt að Verkamannaflokkurinn hafi með leynd þegið fé frá mönnum, sem hann síðar tilnefndi til sætis í lávarðadeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×