Erlent

Móðurmálið lykilatriði í lausn dæma

Stærðfræðidæmi
Við lausn þessa reikningsdæmis byggir drengurinn á því tungumáli sem hann elst upp við, kemur fram í nýrri rannsókn.
Stærðfræðidæmi Við lausn þessa reikningsdæmis byggir drengurinn á því tungumáli sem hann elst upp við, kemur fram í nýrri rannsókn. MYND/Nordicphotos/afp

Fólk sem hefur ensku að móðurmáli leysir reikningsdæmi á annan hátt en það sem elst upp við kínversku. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn á virkni heilahvela við lausn á reikningsdæmum.

Tveir hópar fólks, sem höfðu annars vegar ensku og hins vegar kínversku að móðurmáli, voru látnir leysa einföld reikningsdæmi og notuðu báðir hóparnir arabísku tölustafina, sem nýttir eru í kínversku, ensku og íslensku.

Báðir hóparnir leystu dæmin án vandkvæða, og nýttu við það þann hluta heilans sem notaður er við lestur og skilning á magni. Hins vegar kom það vísindamönnunum á óvart að uppgötva að þeir enskumælandi nýttu einnig þann hluta heilans sem hefur með tungumál að gera, á meðan þeir kínversku notuðu þann hluta heilans sem hefur með skilning á myndrænum upplýsingum að gera, að sögn Yiyuan Tang, kínversks háskólaprófessors sem leiddi rannsóknina.

Talið er að rannsóknin geti leitt til uppgötvana sem gætu auðveldað samskipti mismunandi þjóða og þjóðfélagshópa, því hún útskýrir að hluta til mismuninn í hugsun Bandaríkjamanna og Kínverja, að sögn Tang.

Rannsóknin var fjármögnuð bæði af kínverskum og bandarískum aðilum og voru niðurstöðurnar birtar í bandarísku vísindatímariti á þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×