Erlent

Hefndarmorð á unglingum

New Orleans Lögreglumaður á glæpavettvangi. Morðin hafa vakið mikinn óhug meðal borgarbúa.
New Orleans Lögreglumaður á glæpavettvangi. Morðin hafa vakið mikinn óhug meðal borgarbúa.

Fimm unglingar voru skotnir til bana í New Orleans í Bandaríkjunum í gær, og er það versta fjöldamorð sem framið hefur verið í sögu borgarinnar. Fórnarlömbin, fimm ungir piltar á aldrinum 16 til 19 ára, fundust í og við bíl þeirra eftir að morðingjarnir höfðu skotið fjölmörgum skotum á bílinn með þeim afleiðingum að allir í honum létust. Flestir mannanna dóu samstundis en einn þeirra náði að skríða stuttan spöl frá bílnum áður en hann lést.

Lögreglan í New Orleans hefur enn enga hugmynd um hver eða hverjir voru þarna að verki og álítur að morðin hafi verið framin í hefndarskyni af fíkniefnasölum, en bílnum var lagt á stað sem alræmdur er fyrir fíkniefnasölu og glæpi af ýmsu tagi.

Morðtíðni í New Orleans var með þeim hæstu í Bandaríkjunum á tímabili en fór lækkandi eftir hamfarirnar sem fellibylurinn Katrín olli á seinasta ári.

Það sem af er þessu ári hafa fimmtíu og tvö morð verið framin í New Orleans. Íbúar munu uggandi um að ofbeldisglæpum í borginni eigi enn eftir að fjölga á næstu misserum. Virðast þessir atburðir renna stoðum undir þann ótta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×