Erlent

Barnaníðingurinn ákærður

Týndar systur Stacy Lemmens, 7 ára, og Nathalie Mahy, 10 ára.
Týndar systur Stacy Lemmens, 7 ára, og Nathalie Mahy, 10 ára. MYND/AP

Lögreglan í Belgíu hefur ákært dæmdan barnaníðing vegna hvarfs tveggja telpna, sjö og tíu ára, en stúlkurnar hurfu á laugardag. Abdallah Ait Oud gaf sig sjálfur fram til lögreglu eftir að lýst var eftir honum í fjölmiðlum. Hann neitar allri aðild að málinu og belgíska lögreglan er vonlítil um að hann játi nokkuð á sig, nema sönnunargögn finnist.

Telpurnar, sem eru stjúpsystur, voru í veislu á götu í Liege í austurhluta Belgíu, þegar þær hurfu um klukkan hálftvö að morgni laugardags.

Oud, sem er 39 ára gamall, sást í nágrenni stúlknanna skömmu áður en hvarf þeirra varð uppvíst, en hann er sagður vera unnusti þjónustustúlku á veitingastað nokkrum í nágrenninu. Hann hefur tvisvar áður verið dæmdur fyrir nauðgun og mannrán á ungum telpum, en var leystur úr haldi í desember, því sérfræðingar sögðu hann vera "læknaðan".

Belgar eru margir hverjir miður sín vegna fréttanna af hvarfi telpnanna og óttast að það endurspegli mál barnaníðingsins og morðingjans Marc Dutroux á tíunda áratugnum.

Tugir manna með sporhunda leita nú telpnanna ákaft, en enn vonast fólk til þess að finna þær á lífi, var haft eftir yfirmanni lögreglunnar í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×