Píslavættir liðanna alda 15. apríl 2006 00:01 Ef skoðaðar eru Íslandssögurnar, bækur um liðnar aldir, ævisögur og frásagnir um hin fornu tún, eru þar karlar til frásögu, sögur af körlum, sögur eftir karla, sögur af afrekum þeirra og lífshlaupi. Konur koma sjaldan og lítið við sögu. Ég man eftir ævisögu mikilsmetins sveitarhöfðingja, þar sem hann rekur ævi sína af mikilli nákvæmni og þylur upp athafnir sínar og stórvirki. Bókin var rétt um fimm hundruð síður. Á einum stað í þessari bók, á bls. 436 segir frá því að hann hafi kvænst góðri konu og átt með henni sjö börn. "Hún reyndist honum traustur lífsförunautur," segir orðrétt. Að öðru leyti var hennar ekki getið. Hvergi á hana minnst. Nú má vera að þessi ágæti maður hafi lyft öllum sínum grettistökum án opinbers atbeina konu sinnar. En skyldi hún ekki hafa lagt honum lið fyrir það eitt að ala upp börnin og ala önn fyrir honum sjálfum? Hvar hefði þessi karl verið án hennar, konu sinnar? Kjarni málsins er sá, að hlutur kvenna í sögu þessarar þjóðar er harla rýr og liggur óbættur hjá garði. Á síðari árum hefur verið gerð tilraun til að bæta úr þessum óskunda og til eru heiðarlegar undantekningar á þeirri hefðbundnu tilhneigingu að skrifa söguna með karlmanns gleraugum. En Íslandssagan sem kennd er í skólum, sem skrifuð er í öldinni okkar, sagan af baráttu þessarar þjóðar er samfelld frásögn af ártölum, atburðum og hetjudáðum sem tengjast körlum. Og varla þarf að minna á að skólagöngu hlaut enginn nema vera karlkyns. Hvað þá embætti. Nú má vera að konur hafi ekki barist til valda, brotið blöð í atvinnusögu eða sjálfstæðisbaráttu eða hlotið upphefð í karlægum heimi. Þær höfðu jú ekki einu sinni kosningarétt fyrr en á síðustu öld, nær þúsund árum eftir að Íslendingar hrósa sér af því að hafa fyrstir manna stofnað þing í nafni lýðræðisins. En einhvern veginn fjölgaði þessi þjóð sér, og skrattakornið var eldað ofan í þá og þvegið af þeim, körlunum, og einhvernveginn fengu krakkarnir uppeldi og einhver hlýtur að hafa gætt bús og barna, meðan karlarnir voru uppteknir við að skrá nöfn sín á spjöld sögunnar. Jú, víst hafa verið skrifaðar bækur um baráttu kvenna til atkvæðisréttar og kjörgengis, til jafnréttis í kjaramálum, um sögu ljósmæðra og annarrra kvennastétta og einstaka kvenskörunga, sem aðallega urðu frægar fyrir að vera öðru vísi en hinar. En hvað með allan skarann, hin breiða fjölda kvenna til sjávar og sveita, þær óbreyttu og óþekktu mæður og systur, húsfreyjur og vinnuhjú, dætur og þræla þeirra karlpunga, sem einna er getið þegar sagnfræðin er annars vegar? Hvar er þeirra saga? Inn til dala, út til fjarða, í litlum kotum og afskekktum byggðum, hlúðu þær að ómegðinni, gengu til verka, nýttu það litla sem var til af matarbirgðum, sinntu húsbóndanum, sinntu hlutverki þjónsins og þrælsins, húsverkum, matseld, börnum, gamalmennum, skepnum, heyskap, þvottum, gestum og gangandi. Ef húsfreyjan féll frá, leystist heimilið upp. Sveitakonan var burðarásinn, kjölfestan og framlengingin frá einni kynslóðinni til annarrar. Þessar konur fóru ekki á fundi, ekki í skóla, ekki á mannamót, þær fluttu ekki ræður né drýgðu glæpi. Þær fóru satt að segja aldrei af bæ, því þar voru kýrnar og þar voru börnin og þó þær hafi aldrei vitað það, voru þær þjóðin sem þraukaði í átthögunum og hélt í okkur lífinu. Þannig er saga þeirra krotuð í moldina, sem þær yrktu, í móðurmjólkinni sem yljaði og nærði í kaldri vosbúðinni og þessari ótrúlegu þrautseigju og nægjusemi sem var einkenni íslenskra búskaparhátta um aldir alda og allt fram á okkar daga. Svo ég sé ekki að skafa af því: þær voru og eru, íslensku bóndakonurnar, hvunndagshetjur, sem héldu líftórunni í okkur, bókstaflega sagt. Þær eru holdi klæddar, persónugervingar kvennanna tveggja, sem sátu og þraukuðu við gröf Jesús Krists og sáu hann rísa upp og stíga til himins. Hinn lýsandi vitnisburður um tilvist okkar og líf, trúin og vonin um blóm í haga, logandi litli neistinn, sem varð að ljómandi eldi og breiddi úr sér í kristinni trú og kærleika. Píslarvættirnir, sem báru þann kross á herðum sér um dimma dali og daprar vetrarnætur, þar til aftur birti til og við nú upplifum. Minnumst þessa fornmæðra okkar. Þeirra var líka píslargangan. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ellert B. Schram Skoðanir Mest lesið Valkyrjur: Ekki falla á prófinu! Gunnar Hólmsteinn Ársælsson Skoðun 13,5 milljónir Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun Hvammsvirkjun og meintur orkuskortur Ólafur Páll Jónsson Skoðun Kóngar vímuefnaheimsins Lára G. Sigurðardóttir Skoðun Að vera léttvægur fundinn Guðmunda G. Guðmundsdóttir Skoðun Hvað með það þótt sérfræðingar að sunnan fari í verkfall? Silja Bára Ómarsdóttir Skoðun Halldór 18.01.2025 Halldór Er heimurinn á leið til helvítis? Árni Sigurðsson Skoðun Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Ef skoðaðar eru Íslandssögurnar, bækur um liðnar aldir, ævisögur og frásagnir um hin fornu tún, eru þar karlar til frásögu, sögur af körlum, sögur eftir karla, sögur af afrekum þeirra og lífshlaupi. Konur koma sjaldan og lítið við sögu. Ég man eftir ævisögu mikilsmetins sveitarhöfðingja, þar sem hann rekur ævi sína af mikilli nákvæmni og þylur upp athafnir sínar og stórvirki. Bókin var rétt um fimm hundruð síður. Á einum stað í þessari bók, á bls. 436 segir frá því að hann hafi kvænst góðri konu og átt með henni sjö börn. "Hún reyndist honum traustur lífsförunautur," segir orðrétt. Að öðru leyti var hennar ekki getið. Hvergi á hana minnst. Nú má vera að þessi ágæti maður hafi lyft öllum sínum grettistökum án opinbers atbeina konu sinnar. En skyldi hún ekki hafa lagt honum lið fyrir það eitt að ala upp börnin og ala önn fyrir honum sjálfum? Hvar hefði þessi karl verið án hennar, konu sinnar? Kjarni málsins er sá, að hlutur kvenna í sögu þessarar þjóðar er harla rýr og liggur óbættur hjá garði. Á síðari árum hefur verið gerð tilraun til að bæta úr þessum óskunda og til eru heiðarlegar undantekningar á þeirri hefðbundnu tilhneigingu að skrifa söguna með karlmanns gleraugum. En Íslandssagan sem kennd er í skólum, sem skrifuð er í öldinni okkar, sagan af baráttu þessarar þjóðar er samfelld frásögn af ártölum, atburðum og hetjudáðum sem tengjast körlum. Og varla þarf að minna á að skólagöngu hlaut enginn nema vera karlkyns. Hvað þá embætti. Nú má vera að konur hafi ekki barist til valda, brotið blöð í atvinnusögu eða sjálfstæðisbaráttu eða hlotið upphefð í karlægum heimi. Þær höfðu jú ekki einu sinni kosningarétt fyrr en á síðustu öld, nær þúsund árum eftir að Íslendingar hrósa sér af því að hafa fyrstir manna stofnað þing í nafni lýðræðisins. En einhvern veginn fjölgaði þessi þjóð sér, og skrattakornið var eldað ofan í þá og þvegið af þeim, körlunum, og einhvernveginn fengu krakkarnir uppeldi og einhver hlýtur að hafa gætt bús og barna, meðan karlarnir voru uppteknir við að skrá nöfn sín á spjöld sögunnar. Jú, víst hafa verið skrifaðar bækur um baráttu kvenna til atkvæðisréttar og kjörgengis, til jafnréttis í kjaramálum, um sögu ljósmæðra og annarrra kvennastétta og einstaka kvenskörunga, sem aðallega urðu frægar fyrir að vera öðru vísi en hinar. En hvað með allan skarann, hin breiða fjölda kvenna til sjávar og sveita, þær óbreyttu og óþekktu mæður og systur, húsfreyjur og vinnuhjú, dætur og þræla þeirra karlpunga, sem einna er getið þegar sagnfræðin er annars vegar? Hvar er þeirra saga? Inn til dala, út til fjarða, í litlum kotum og afskekktum byggðum, hlúðu þær að ómegðinni, gengu til verka, nýttu það litla sem var til af matarbirgðum, sinntu húsbóndanum, sinntu hlutverki þjónsins og þrælsins, húsverkum, matseld, börnum, gamalmennum, skepnum, heyskap, þvottum, gestum og gangandi. Ef húsfreyjan féll frá, leystist heimilið upp. Sveitakonan var burðarásinn, kjölfestan og framlengingin frá einni kynslóðinni til annarrar. Þessar konur fóru ekki á fundi, ekki í skóla, ekki á mannamót, þær fluttu ekki ræður né drýgðu glæpi. Þær fóru satt að segja aldrei af bæ, því þar voru kýrnar og þar voru börnin og þó þær hafi aldrei vitað það, voru þær þjóðin sem þraukaði í átthögunum og hélt í okkur lífinu. Þannig er saga þeirra krotuð í moldina, sem þær yrktu, í móðurmjólkinni sem yljaði og nærði í kaldri vosbúðinni og þessari ótrúlegu þrautseigju og nægjusemi sem var einkenni íslenskra búskaparhátta um aldir alda og allt fram á okkar daga. Svo ég sé ekki að skafa af því: þær voru og eru, íslensku bóndakonurnar, hvunndagshetjur, sem héldu líftórunni í okkur, bókstaflega sagt. Þær eru holdi klæddar, persónugervingar kvennanna tveggja, sem sátu og þraukuðu við gröf Jesús Krists og sáu hann rísa upp og stíga til himins. Hinn lýsandi vitnisburður um tilvist okkar og líf, trúin og vonin um blóm í haga, logandi litli neistinn, sem varð að ljómandi eldi og breiddi úr sér í kristinni trú og kærleika. Píslarvættirnir, sem báru þann kross á herðum sér um dimma dali og daprar vetrarnætur, þar til aftur birti til og við nú upplifum. Minnumst þessa fornmæðra okkar. Þeirra var líka píslargangan.
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun