Ráðgjöf er eitt - ábyrgð annað 14. mars 2006 00:01 Það hefur ábyggilega alltaf verið þannig að stjórnendur, hvort heldur fyrirtækja eða þjóða, hafa átt sér einhverja ráðgjafa og aðstoðarmenn. Einráðir kóngar voru að því leytinu varla einráðir að allt sem þeir ákváðu kæmi úr þeirra eigin hugarfylgsnum, heldur höfðu þeir ráðgjafa og ég held að það séu meira segja til sögur um að einhverjir kóngar hafi hlustað á konuna sína. Það er ábyggilega frekar aldur minn en nokkuð annað sem skýrir að þegar ég heyri um nána ráðgjafa og jafnvel ræðuritara stjórnmálamanna, þá dettur mér alltaf Kennedy forseti í hug. Hann hafði enda í kringum sig vaska sveit manna sem reyndar fór það orð af að væru of einsleitir: allir háskólamenntaðir og ríkir. Eftir því sem lífið verður fjölbreytilegra þeim mun meiri þörf er á að stjórnmálamenn hafi sér til fulltingis fólk sem gjörþekkir þau mál sem eru til umfjöllunar. Fólk sem getur ráðið stjórnmálamönnum heilt um atriði sem ekki er hægt að gera kröfu til að þeir þekki eða kunni til hlítar. Þetta er auðvitað hlutverk ráðuneyta, en stundum þarf að leita út fyrir þann hóp til að finna þá sérþekkingu sem þörf er á. Það hlýtur á stundum að vera vanþakklátt verkefni að vera náinn ráðgjafi stjórnmálamanns því eðli máls samkvæmt eru afkvæmi slíks samstarfs ávallt eignuð stjórnmálamanninum enda er það hann sem ber ábyrgðina, verður fyrir skakkaföllum ef illa tekst til en uppsker einnig þakklætið, hrósið og ljómann þegar vel tekst til. Það er væntanlega vegna þess síðastnefnda, sem sumir sem eru í hlutverki ráðgjafans geta ekki þagað og hreykja sér t.d. af því að hafa skrifað ræður stjórnmálamanna. Þegar svo er komið eru menn komnir út fyrir þann ramma sem samstarf af þessu tagi hlýtur að byggjast á. Ég man hve ég var undrandi þegar ég í fyrsta skipti heyrði mann státa sig af því að hafa skrifað ræðu ráherrans. Ég minnist þess ekki að hafa mikið heyrt um höfunda lagafrumvarpa fyrr en nú á síðustu vikum. Um miðjan febrúar var kynnt frumvarp til breytinga á ákveðnum ákvæðum hegningarlaga um kynferðisafbrot. Í fréttatilkynningu sagði að prófessor Ragnheiður Bragadóttir hefði samið frumvarpið að beiðni dómsmálaráðherra. Prófessorinn hefur síðan kynnt frumvarpið, athugasemdir hafa borist og samkvæmt nýrri fréttatilkynningu hafa þau ráðherrann nú sett punkt aftan við frumvarpið og hyggst hann leggja fyrir ríkisstjórn að það verði lagt fyrir Alþingi. Allt er þetta gott og blessað og jafnvel til fyrirmyndar ef öllum er ljóst að nú er hlutverki prófessorsins lokið og ráðherrann hefur tekið við. Héðan í frá hlýtur hann að svara spurningum sem varða frumvarpið en ekki hún. Það er hins vegar ekki nóg að prófessornum og ráðherranum sé þetta ljóst heldur verður fréttamönnum að vera það líka. Fréttamenn bera nefnilega mikla ábyrgð í þessu flókna þjóðfélagi sem við búum í. Flest okkar vita lítið sem ekkert um hvað er að gerast nema það sem við heyrum í fréttum og okkur er þess vegna vorkunn að halda heimurinn sé eins og sá sem okkur er sýndur í sjónvarpinu. Nú síðustu daga hafa verið harðar deilur á Alþingi um vatnalög. Nafna mín Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, sem flytur málið sagði um málflutning stjórnarandstöðunnar um frumvarpið að hann væri "svo ómerkilegur að engu tali tæki". Valgerður er reyndar óvenju uppstökk þessa dagana og skammar ekki bara stjórnarandstöðuna heldur líka Moggann. Manni dettur í hug að henni sé farið að leiðast óþarflega mikið í vinnunni, fyrst hún nennir ekki að svara efnislega gagnrýni á málflutning hennar hvort heldur er um vatnalög eða myntbandalög - en þetta var útúrdúr. Fjórða grein frumvarpsins um vatnalögin er um eignarhald á vatni, svolítið grundvallaratriði finnst sumum en öðrum auðsjáanlega ekki. Hvað gera þá fréttamenn? Þeir ná í einn af höfundum frumvarpsins og spyrja hann. Með þeirri gjörð gefa þeir í skyn að hér sé um tæknilegt en ekki pólitískt atriði að ræða. Rýrð er varpað á málflutning stjórnarandstöðunnar með því að gefa í skyn að þetta sé tækniatriði sem sérfræðingur geti svarað. Fréttamenn eiga að vita að þegar frumvarp er komið fyrir þingið þá eru það stjórnmálamennirnir sem einir bera ábyrgð á þeim en ekki sérfræðingarnir eða ráðgjafarnir sem skrifuðu textann. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Valgerður Bjarnadóttir Mest lesið Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Jæja, ræðum þá þetta dásamlega Evrópusamband Haraldur Ólafsson Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Misskilin mannúð í hælisleitendamálum Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir Skoðun Barnaskapur Bjarna Ben; Fjölmargar þjóðir með meiri kaupmátt en við! Ole Anton Bieltvedt Skoðun 11 ástæður fyrir því að kjósa Pírata Baldur Karl Magnússon Skoðun Hvað viltu að bíði þín heima? Þórdís Dröfn Skoðun Ætla Íslendingar að standa vörð um orkuauðlindir sínar? Ágústa Ágústsdóttir Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun
Það hefur ábyggilega alltaf verið þannig að stjórnendur, hvort heldur fyrirtækja eða þjóða, hafa átt sér einhverja ráðgjafa og aðstoðarmenn. Einráðir kóngar voru að því leytinu varla einráðir að allt sem þeir ákváðu kæmi úr þeirra eigin hugarfylgsnum, heldur höfðu þeir ráðgjafa og ég held að það séu meira segja til sögur um að einhverjir kóngar hafi hlustað á konuna sína. Það er ábyggilega frekar aldur minn en nokkuð annað sem skýrir að þegar ég heyri um nána ráðgjafa og jafnvel ræðuritara stjórnmálamanna, þá dettur mér alltaf Kennedy forseti í hug. Hann hafði enda í kringum sig vaska sveit manna sem reyndar fór það orð af að væru of einsleitir: allir háskólamenntaðir og ríkir. Eftir því sem lífið verður fjölbreytilegra þeim mun meiri þörf er á að stjórnmálamenn hafi sér til fulltingis fólk sem gjörþekkir þau mál sem eru til umfjöllunar. Fólk sem getur ráðið stjórnmálamönnum heilt um atriði sem ekki er hægt að gera kröfu til að þeir þekki eða kunni til hlítar. Þetta er auðvitað hlutverk ráðuneyta, en stundum þarf að leita út fyrir þann hóp til að finna þá sérþekkingu sem þörf er á. Það hlýtur á stundum að vera vanþakklátt verkefni að vera náinn ráðgjafi stjórnmálamanns því eðli máls samkvæmt eru afkvæmi slíks samstarfs ávallt eignuð stjórnmálamanninum enda er það hann sem ber ábyrgðina, verður fyrir skakkaföllum ef illa tekst til en uppsker einnig þakklætið, hrósið og ljómann þegar vel tekst til. Það er væntanlega vegna þess síðastnefnda, sem sumir sem eru í hlutverki ráðgjafans geta ekki þagað og hreykja sér t.d. af því að hafa skrifað ræður stjórnmálamanna. Þegar svo er komið eru menn komnir út fyrir þann ramma sem samstarf af þessu tagi hlýtur að byggjast á. Ég man hve ég var undrandi þegar ég í fyrsta skipti heyrði mann státa sig af því að hafa skrifað ræðu ráherrans. Ég minnist þess ekki að hafa mikið heyrt um höfunda lagafrumvarpa fyrr en nú á síðustu vikum. Um miðjan febrúar var kynnt frumvarp til breytinga á ákveðnum ákvæðum hegningarlaga um kynferðisafbrot. Í fréttatilkynningu sagði að prófessor Ragnheiður Bragadóttir hefði samið frumvarpið að beiðni dómsmálaráðherra. Prófessorinn hefur síðan kynnt frumvarpið, athugasemdir hafa borist og samkvæmt nýrri fréttatilkynningu hafa þau ráðherrann nú sett punkt aftan við frumvarpið og hyggst hann leggja fyrir ríkisstjórn að það verði lagt fyrir Alþingi. Allt er þetta gott og blessað og jafnvel til fyrirmyndar ef öllum er ljóst að nú er hlutverki prófessorsins lokið og ráðherrann hefur tekið við. Héðan í frá hlýtur hann að svara spurningum sem varða frumvarpið en ekki hún. Það er hins vegar ekki nóg að prófessornum og ráðherranum sé þetta ljóst heldur verður fréttamönnum að vera það líka. Fréttamenn bera nefnilega mikla ábyrgð í þessu flókna þjóðfélagi sem við búum í. Flest okkar vita lítið sem ekkert um hvað er að gerast nema það sem við heyrum í fréttum og okkur er þess vegna vorkunn að halda heimurinn sé eins og sá sem okkur er sýndur í sjónvarpinu. Nú síðustu daga hafa verið harðar deilur á Alþingi um vatnalög. Nafna mín Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, sem flytur málið sagði um málflutning stjórnarandstöðunnar um frumvarpið að hann væri "svo ómerkilegur að engu tali tæki". Valgerður er reyndar óvenju uppstökk þessa dagana og skammar ekki bara stjórnarandstöðuna heldur líka Moggann. Manni dettur í hug að henni sé farið að leiðast óþarflega mikið í vinnunni, fyrst hún nennir ekki að svara efnislega gagnrýni á málflutning hennar hvort heldur er um vatnalög eða myntbandalög - en þetta var útúrdúr. Fjórða grein frumvarpsins um vatnalögin er um eignarhald á vatni, svolítið grundvallaratriði finnst sumum en öðrum auðsjáanlega ekki. Hvað gera þá fréttamenn? Þeir ná í einn af höfundum frumvarpsins og spyrja hann. Með þeirri gjörð gefa þeir í skyn að hér sé um tæknilegt en ekki pólitískt atriði að ræða. Rýrð er varpað á málflutning stjórnarandstöðunnar með því að gefa í skyn að þetta sé tækniatriði sem sérfræðingur geti svarað. Fréttamenn eiga að vita að þegar frumvarp er komið fyrir þingið þá eru það stjórnmálamennirnir sem einir bera ábyrgð á þeim en ekki sérfræðingarnir eða ráðgjafarnir sem skrifuðu textann.